138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Samanburðurinn við öryggisráðsmálið er vissulega sláandi og enn eitt atriðið sem setur í samhengi hvernig haldið hefur verið á kynningarstarfinu í þessu máli. Ég get eiginlega ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að ástæðan fyrir því að haldið hafi verið á málum með þessum hætti, þ.e. málið ekkert kynnt og raunar þráast mjög við í því — ég minni á að bréfin sem hæstv. forsætisráðherra sendi forsætisráðherrum Bretlands og Hollands fóru ekki af stað fyrr en búið var að margítreka við hana að hún þyrfti að senda slík bréf — sé sú að þessi ríkisstjórn, eða a.m.k. hluti hennar, telur hag sínum best borgið með því að færa einhverja gríðarlega stóra fórn til að geðjast þessu margumtalaða og óskilgreinda alþjóðasamfélagi og í því liggur alveg gríðarlega stór og dýr misskilningur, langdýrasti misskilningur Íslandssögunnar. En til að fjármagna þennan gríðarlega misskilning, ef hann gengur alla leið, þarf ákaflega mikinn afgang af útflutningi okkar, eins og hv. þingmaður útskýrði m.a. í andsvörum við hv. þm. Eygló Harðardóttur. Mig langar til að heyra hvort hv. þingmaður telur þann afgang sem gert er ráð fyrir í forsendum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Seðlabankans mögulegan. Ég tel reyndar að hann sé ekki mögulegur, en ef ætti að vera hægt að ná þessu fram, sem væri einhvers konar heimsmet, þá þyrftu Íslendingar að búa hér við afar lök kjör í millitíðinni. Menn hefðu sem sagt ekki efni á því að lifa því lífi sem þeir hafa gert í þessu landi undanfarna áratugi.