138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka aðeins upp þráðinn þar sem hv. þm. Illugi Gunnarsson lauk máli sínu í andsvörum þegar hann og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ræddu um athafnaleysi stjórnvalda í samskiptum við önnur ríki vegna þessa máls. Nú liggja fyrir ákveðnar upplýsingar t.d. um samskipti hæstv. fjármálaráðherra og þessi bréf hæstv. forsætisráðherra. Eins hefur komið fram að hæstv. utanríkisráðherra átti nokkra fundi á haustdögum þar sem hann ræddi þessi mál. Reyndar hefur verið kallað eftir upplýsingum um hvert efni þeirra funda hafi verið en við bíðum enn svara við því. Það sama má segja um aðkomu utanríkisþjónustunnar að þessu máli sem hv. þingmenn Illugi Gunnarsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ræddu um. Það er komin fram fyrirspurn á þinginu til hæstv utanríkisráðherra þar sem óskað er eftir upplýsingum um það hvernig utanríkisþjónustan hafi beitt sér í málinu og hversu miklum fjármunum hafi verið varið í þetta og mikilvægt að þau svör komi fram áður en umræðunni lýkur. Vegna þess, eins og fram kom í máli þessara hv. þingmanna, að fordæmi eru fyrir því að utanríkisþjónustunni sé beitt í átaksverkefnum. Ég legg ekki mat á mikilvægi þeirra en fram hefur komið að þegar utanríkisráðherrar stefndu að því að koma Íslandi inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, þá var miklum fjármunum og mikilli orku utanríkisþjónustunnar varið í slík verkefni og ég minnist þess að hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fór ófáar ferðir til annarra landa til að tala máli Íslands í því sambandi. Mjög hörð kosningabarátta var rekin og það var varla sú eyja á Kyrrahafinu eða ríki í Afríku sem ekki var reynt að hafa samband við til að vinna málstað Íslands, eins og það var kallað, fylgis þannig að utanríkisþjónustunni og stjórnsýslunni hefur verið beitt í svona verkefnum sem hefur á tímum verið talið mikilvægt að sinna.

Nú erum við hv. þingmenn sammála um það að hvað varðar hagsmuni Íslands og íslensks almennings þá er það mál sem við ræðum hér miklu mikilvægara en seta í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ég held að við þurfum ekki að deila um það að í samanburði við þá gríðarlegu efnahagslegu hagsmuni sem hér er um að tefla er seta í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna bara hégómi, fullkominn hégómi miðað við það að verið er að leggja skuldbindingar á Íslendinga til langrar framtíðar. Við vitum hvorki til hversu langrar framtíðar né hversu háar fjárhæðir þarf að greiða en það er alla vega ljóst að hér er um gríðarlega fjármuni og langan tíma að ræða. Ég held að það sé alveg kristaltært.

Það erum ekki bara við hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sem erum þeirrar skoðunar að íslensk stjórnvöld hafi ekki beitt sér af því afli sem nauðsynlegt var til að ná markmiðum okkar eða koma hagsmunum okkar á framfæri. Ég vitna í hv. þm. Ögmund Jónasson sem í ritdómi í tímariti nokkru hefur fjallað um þetta mál og má segja að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi farið nokkrar krókaleiðir til að koma þessu sjónarmiði sínu á framfæri vegna þess að hann hefur ekki tjáð sig í umræðunni, eins og hugsanlega hefði mátt gera ráð fyrir. Það kann að breytast. Það kann að vera að hv. þingmaður eigi eftir að taka til máls. Engu að síður standa þessi ummæli hans í tímaritinu Þjóðmál, sem ég vísaði til, og hann talar í þeirri grein um ótrúlegt meðvitundarleysi íslenskra stjórnvalda, bæði í tíð fyrri ríkisstjórnar en eins í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr og hv. þingmaður átti sæti í um margra mánaða skeið frá 1. febrúar til 1. október, þannig að ætla verður að hann hafi nokkra þekkingu á því sem hann ræðir í þessu sambandi. Hann talar um ótrúlegt meðvitundarleysi íslenskra stjórnvalda við að koma málstað Íslands á framfæri og segir orðrétt í tímaritsgreininni og vísar þar til pólitískra tengsla Íslands í öðrum löndum, með leyfi forseta:

„Það bíður seinni tíma að tíunda það ótrúlega meðvitundarleysi sem íslensk stjórnvöld hafa — allt fram á þennan dag — sýnt við að virkja tengsl af þessu tagi. Engin alvöru tilraun hefur verið gerð til að notfæra þá velvild sem er til staðar gagnvart Íslandi.“

Hann víkur líka að öðrum þáttum eins og t.d. þvingunaraðgerðum sem einnig hafa verið töluvert til umræðu í dag. Hann víkur að því með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Völdin og ofbeldið sem Íslendingar hafa verið beittir hefðu aldrei þolað dagsljósið.“ — Ég skýt hér inn að forvitnilegt væri að fá hv. þm. Ögmund Jónasson í ræðustól til að gera nánari grein fyrir þessum orðum vegna þess að þetta eru mjög þung orð. — „Þetta er mergurinn málsins sem íslensk stjórnvöld hafa ekki skilið. Það gera hins vegar andstæðingar okkar enda eru það þeir sem krefjast leyndar. Og við hlýðum!“

Ég skýt aftur inn, hæstv. forseti, þetta er maður sem átti sæti í ríkisstjórn frá 1. febrúar til 1. október. Hann segir að andstæðingar okkar hafi skilið að það verði að krefjast leyndar til að leyna þeirri valdbeitingu og því ofbeldi sem við höfum verið beitt og hæstv. fyrrv. ráðherra segir: „Og við hlýðum!“

Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir. Ég held tilvitnuninni áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég leyfi mér að fullyrða að almenningur á Norðurlöndum hefði aldrei liðið ríkisstjórnum sínum að koma fram gagnvart Íslandi eins og þær hafa gert — sem handbendi lánardrottna okkar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins — ef framkomu þeirra hefðu verið gerð skil í fjölmiðlum.“

Hafa Íslendingar reynt að nálgast hinar norrænu þjóðirnar af einhverju viti í þessu máli? Ég leyfi mér að efast um það. Auðvitað hafa samskipti verið á milli ráðuneyta og stjórnvalda í þessum löndum en hafa Íslendingar beitt sér til að hafa áhrif á þingmenn, t.d. á norrænu þingunum? Hafa Íslendingar beitt sér til að hafa áhrif á þingmenn á breska þinginu eða hollenska þinginu þar sem þetta mál hefur verið töluvert rætt? Hefur eitthvað verið hlustað á þá tillögu sem ég man að hv. þm. Pétur Blöndal ræddi hér heilmikið í sumar að það yrði skipulagt af hálfu Alþingis að fara til þessara þinga og reyna að ræða við menn og koma sjónarmiðum okkar á framfæri? Ég hygg að hluti af skýringunni á þeirri stöðu sem við erum í í dag sé einmitt sú að mönnum hafi láðst að halda málstað Íslands nægilega vel á lofti, því miður.

Síðan er auðvitað, hæstv. forseti, enn spurning, burt séð frá þessu tiltekna atriði, hvers vegna hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna ætla sér að styðja þetta mál þrátt fyrir allar þær upplýsingar og öll þau rök sem komið hafa fram á undanförnum vikum. Bara á undanförnum vikum hafa komið fram fjölmargar nýjar upplýsingar, góðar greinar fullar af röksemdum, góð nefndarálit full af röksemdum. Þeirri spurningu er enn ósvarað og ég ætla ekki að fara út í þær dulsálarfræðivangaveltur sem hv. þingmenn voru í áðan. En það er veruleg spurning hvers vegna hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna geta hugsað sér að styðja þetta mál miðað við öll þau sjónarmið sem hafa komið fram og það er mér veruleg ráðgáta hvernig þessir hv. þingmenn ætla að mæta kjósendum sínum og útskýra afstöðu sína fyrir þeim. Ég er hræddur um að þeir verði að gera það með einhverjum gildari hætti en komið hefur fram í þingsölum vegna þess að hér hefur rökum, sjónarmiðum og athugasemdum þingmanna stjórnarandstöðunnar verið mætt með þögninni einni. Ég er alveg sannfærður um það að þegar þessir þingmenn standa andspænis kjósendum sínum, hvort sem það verður eftir þrjú ár eða fjögur eða hvenær sem það verður eða þegar við verðum byrjuð að borga, þá muni þeim reynast vandasamt að útskýra (Forseti hringir.) hvers vegna þeir tóku þá afstöðu sem þeir virðast ætla að gera hér.