138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg rétt sem hv. þm. Eygló Harðardóttir bendir á, þ.e. þær fátæklegu skýringar sem koma fram í orðum hv. þingmanna sem tjáðu sig við Morgunblaðið í morgun um þessi mál. Þar eru tvenns konar sjónarmið yfirleitt nefnd til sögunnar, annars vegar það sem þeir kalla málþóf stjórnarandstöðunnar og hins vegar að ekkert nýtt hafi komið fram í málinu. Ég tel að þeir sem halda því fram að ekkert nýtt hafi komið fram í málinu séu komnir á mjög hálan ís og slík ummæli beri þess vitni að þeir hafi ekki fylgst vel með því sem hefur verið að gerast, hvorki innan þings né í fjölmiðlum. Menn virðast hafa verið gersamlega meðvitundarlausir ef þeir halda því fram að ekkert nýtt hafi komið fram í málinu. Hins vegar er svo þetta með málþófið. Ætla menn að rökstyðja það að þeir styðji mörg hundruð (Forseti hringir.) milljarða skuldbindingu fyrir Ísland bara af því einhverjir aðrir eru kannski í málþófi?