138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Umsókn okkar um aðild að Evrópusambandinu hefur einhvern tímann verið kölluð dýrasta bjölluat sögunnar. Eins hefur afgreiðsla okkar á Icesave-málinu stundum verið kölluð dýrasti aðgöngumiði sögunnar. (PHB: Það er af því við eigum svo mikið af peningum.) Hv. þm. Pétur H. Blöndal kallar fram í að það sé af því að við eigum svo mikið af peningum. Það mátti kannski ráða það af ummælum hæstv. viðskiptaráðherra áðan að við værum svo vel í stakk búin til að mæta þessu vegna þess að hér væri allt í blóma, sem auðvitað stangast dálítið á við ummæli sem við erum vön að heyra úr röðum ríkisstjórnarflokkanna um að hér sé allt í rúst eftir valdatíma Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þannig að maður veit ekki alveg hvoru maður á að trúa.

Hæstv. viðskiptaráðherra greindi stöðuna þannig að við Íslendingar byggjum þrátt fyrir allt við ein bestu lífskjör í heiminum. Ég er sammála honum. En stemmir það saman við það sem aðrir hæstv. ráðherrar, eins og t.d. hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafa sagt, að hér sé allt í rúst eftir 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins og 12 ára aðkomu Framsóknarflokksins að stjórnvöldum?

Ég held burt séð frá þessu að við komumst kannski ekki lengra með nákvæmlega þennan þátt. Við stöndum bara frammi fyrir því að þeir sem styðja þetta mál ætla að þegja sig í gegnum það. Þeir ætla að láta málið ganga til atkvæða án þess að hafa tjáð sig um afstöðu sína, án þess að hafa gert þingi og þjóð grein fyrir því á hverju þeir byggja skoðun sína. Við stöndum auðvitað í þeim sporum að hafa haldið vel á okkar málflutningi, hafa flutt rök fyrir máli okkar en ekki fengið svör og ekki fengið gagnrök.

Það er einmitt það sem ég benti á áðan, að hv. þingmenn stjórnarflokkanna geta kannski leyft sér að gera þetta í þinginu, það er ekkert sem neyðir (Forseti hringir.) þá til að tala, en hvað um kjósendur þeirra?