138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Yfirlýsing hæstv. viðskiptaráðherra ein og sér er algjörlega óásættanleg fyrir Alþingi og við skulum vona að hún sé ekki rétt. Við skulum annars vegar vona að Alþingi felli þetta frumvarp en við skulum líka vona að það sé ekki fyrir fram ákveðið hvernig þingmenn þessara tveggja stjórnarflokka greiða atkvæði í málinu og það sé ástæðan fyrir því að þeir taka ekki til máls og vilja ekki heldur hlusta vegna þess að sama hvað þeir heyri og sama hvað þeir segi sé niðurstaðan fyrir fram ákveðin.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði einhvern tímann í sínu fyrra lífi að þingmenn þáverandi stjórnar, hann var þá í stjórnarandstöðu, væru eins og atkvæðagreiðsluvélar því þeir gerðu bara það sem flokkarnir ætluðust til af þeim. Ég held að það hafi varla verið aðrar eins atkvæðagreiðsluvélar í þinginu eins og þingmenn a.m.k. annars stjórnarflokksins nú, það á eftir að koma í ljós hvernig verður á endanum með hinn. Það hefur komið í ljós aftur og aftur að þingmennirnir lúta einhvers konar flokksaga í þessu máli og jafnvel þeir þingmenn sem maður veit eða telur sig vita að í hjarta sínu séu ósammála því sem stjórnin er að gera treysta sér ekki til að koma í ræðustól og segja það. Þeir munu hugsanlega ekki treysta sér til að greiða atkvæði í samræmi við sannfæringu sína. Þetta hlýtur að vera dapurlegt, sérstaklega í ljósi þess sem ég nefndi áðan að þeir tveir flokkar sem nú mynda ríkisstjórnina töluðu svo mikið fyrir því að það þyrfti að hverfa frá þessum blinda flokksaga sem hefur líklega aldrei verið jafnslæmur og nú. (Forseti hringir.)