138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:54]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka enn á ný hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ræðu hans. Hann hefur verið óþreytandi við að fylgja þessu máli eftir og benda á galla þess.

Ég ætlaði að fá að spyrja hv. þingmann um skuldaþol hins íslenska þjóðarbús. Í frumvarpinu, sem kemur óbreytt út úr fjárlaganefnd samkvæmt tillögu meiri hlutans, er talað um að það eigi að fara fram ákveðin endurskoðun á lánasamningnum og sú endurskoðun á að fara fram í síðasta lagi 5. júní 2015. Ég hef reynt mikið, í ljósi þess hvað stjórnarliðar hafa tjáð sig lítið um þetta mál, að skilja ástæðuna fyrir því að menn eru tilbúnir að samþykkja þetta. Ég er sannfærð um að þetta sé eitthvað sem við munum þurfa að borga en hef fengið á tilfinninguna að ýmsir stjórnarliðar telji að það verði jafnvel ekki, þeir trúa og treysta á þetta ákvæði í lögunum um endurskoðunina. Það er talað um að skuldir þjóðarbúsins megi ekki fara fram úr ákveðnum hlutföllum, með leyfi forseta:

„1. hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins af vergri landsframleiðslu fer yfir 240%,

2. hlutfall erlendra skulda opinberra aðila af skatttekjum fer yfir 250%,

3. hlutfall erlendra afborgana og vaxta af útflutningstekjum fer yfir 150%.“

Hefur þingmaðurinn upplýsingar um hvort eitthvað af þessu gildi nú þegar og hvort það liggi fyrir útreikningar um að þetta muni ekki verða svona árið 2015? Nú hefur komið fram áætlun frá Seðlabankanum um hvernig þeir álíta að staðan muni líta út næstu 15 árin. Getur verið að þetta ákvæði sé þegar orðið gilt þótt við séum að setja það inn í lögin (Forseti hringir.) í þessari umfjöllun?