138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þótti vænt um að heyra að hv. þingmaður nefndi að þetta kynni að gerast. Ég hef alla tíð undirstrikað að þetta eru líkindafræði, það getur gerst, ef t.d. verður mikil og myndarleg og safarík verðbólga í Bretlandi, sem er mjög slæmt fyrir Breta, þá fellur gengið á pundinu og við fáum alltaf meira og meira fyrir fiskinn okkar og álið og ferðamennirnir koma til Íslands. Þá verður létt verk og löðurmannlegt að borga þetta og ákveðnar líkur eru á því. En við höfum engin áhrif á þetta. Ég held að fjármálaráðherra Íslands hafi ekkert með það að gera hvort verðbólga verður í Bretlandi eða ekki. Það er alger tilviljun. Þetta getur gerst, en hið öndverða getur líka gerst, að verðhjöðnun verði í Bretlandi og þá verður þetta gersamlega óbærilegt. Efnahagslegu fyrirvararnir í sumar voru settir fram að mínu frumkvæði að einhverju leyti og ég vildi að Bretar og Hollendingar tækju sem stóri bróðir í leiknum þá áhættu af Íslendingum, þeir færu létt með það, og fengju fyrir það safaríka svavarsvexti og ef hér gengi allt ljómandi þá borguðum við hverja einustu evru og hvert einasta pund, en ef við lendum í einhverjum áföllum, eins og t.d. þeim að neyðarlögin halda ekki, þá erum við varin og tryggð. Mig langaði einmitt sérstaklega til að heyra álit hv. þm. Atla Gíslasonar sem er lögmaður og ég ber mikið traust til, akkúrat þetta langaði mig til að spyrja hann um: Hvað ætlið þið að gera ef neyðarlögin halda ekki? Hvað ætlið þið að gera ef ný tilskipun kemur? Hvað ætlið þið að gera með stjórnarskrárbrotið sem Sigurður Líndal nefnir? En hann er ekki viðstaddur umræðuna, frú forseti, og við stöndum bara hér í einhverju limbói og hann gefur yfirlýsingar í dagblöðum.