138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:49]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Fundi þingflokksformanna er greinilega lokið þar sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og þingflokksformaður Framsóknarflokksins eru komnir í salinn. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki fengið miklar fréttir ...

(Forseti (RR): Hv. þingmaður. Forseti óskar þess að það sé aðeins einn fundur í salnum. Þingmaðurinn hefur orðið.)

Ég þakka fyrir, frú forseti. Mér skilst að samkomulag hafi náðst sem frú forseti ætlar að hvetja til að hv. þingmenn stjórnarflokkanna í fjárlaganefnd virði og mun ég ganga út frá því í þessari ræðu a.m.k. Það er þessi málsmeðferð sem mig langaði aðeins til að ræða í þessari ræðu. Það verður að vera algerlega tryggt, af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni, að þegar við gerum samkomulag um ákveðna málsmeðferð við stjórnarflokkana þá sé það tekið alvarlega. Eins og ég fór yfir í síðustu ræðu minni á laugardaginn var tel ég að samkomulagið sem gert var hafi verið gott fyrir báða aðila. Þarna náðum við í stjórnarandstöðunni að tryggja að farið yrði efnislega í þetta mál í nefndinni. Við tryggðum að kallað yrði eftir ákveðnum gögnum, við tryggðum að ekki yrði einhver fljótaskrift á þessu. Ef menn fara að tortryggja það er það mjög slæmt og ég treysti því að forseti Alþingis beiti sér fyrir þessu. En nóg um það.

Í fyrirspurnatíma áðan var verið að ræða enn einn vinkilinn á þessu máli, sem ég hef verið mikið að kalla eftir í þessari umræðu, en það varðar þau gögn sem eru til grundvallar, hvaða gögn eru gerð opinber, hvaða gögn eru fyrir hendi. Hæstv. utanríkisráðherra svaraði fyrirspurn minni áðan og sagði ekki æskilegt ef menn væru að nota persónuleg netföng sín í samskiptum um þetta mál og í samskiptum sínum við erlendar stofnanir, eins og t.d. Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. En það hefur komið fram í umræðunni að Indriði H. Þorláksson, þáverandi ráðuneytisstjóri, núverandi pólitískur aðstoðarmaður, hefur gert það. Í okkar stuttu samskiptum áðan vannst ekki tími til að svara og hæstv. ráðherra hafði síðasta orðið. Hann sagði að Indriði H. Þorláksson hefði bent á að hann hefði þurft að grípa til þess ráðs að senda á prívat netfang vegna þess að hann hefði verið á ferðalagi. Ég tel þetta vera algera útúrsnúninga, ég hef unnið í Stjórnarráðinu og veit að allir starfsmenn þar eru með netpóst, allir starfsmenn þar komast í tölvupóstinn sinn hvar sem þeir eru í heiminum og það er ekki afsökun fyrir þessu háttalagi.

Ég verð að segja að þetta varpar nýju ljósi á þetta allt saman og eykur tortryggnina sem er þó nóg fyrir, frú forseti, í þessu máli. Ég hef ítrekað kallað eftir öllum skriflegum gögnum hvort sem það eru samskipti, fundargerðir eða frásagnir af samskiptum íslenskra stjórnvalda við erlenda aðila vegna Icesave-málsins. Hæstv. utanríkisráðherra beindi því til okkar, þingmanna í stjórnarandstöðunni, að nota þessa aðferð, að fyrirspurnir væru tæki þingmanna til að spyrja framkvæmdarvaldið, hann hvatti okkur til að gera það. Ég verð að segja við hæstv. utanríkisráðherra: Það er einfaldlega ekki nóg að spyrja þessara spurninga ef við fáum ekki svör við þeim. Ég hvet hæstv. utanríkisráðherra til að svara, hann er reyndar ekki í salnum en ætti kannski að vera það, þessi umræða er mjög mikilvæg og hann þyrfti að vera aðili að henni.

Það hefði verið gott ef hann hefði getað komið hingað upp í andsvar við mig og svarað mér því hvenær hann ætlar að svara þeim fyrirspurnum sem ég hef beint til hans sem varða gögn um Icesave-málið, samskipti, frásagnir, fundargerðir. Ég nota kannski tækifærið fyrst ég er hér og spyr frú forseta hvort ekki standi örugglega til að hafa fyrirspurnafund á miðvikudaginn. Hann féll niður síðasta miðvikudag og ég hef komið upp í umræðum um fundarstjórn forseta til að spyrjast fyrir um það hvenær við megum vænta þess að hæstv. ráðherra svari okkur.

Ég hef kallað eftir þessum gögnum í umræðunni, alveg frá 1. umr. um Icesave í sumar, í júní, í júlí, í ágúst, í september. Ég gerði það við 1. umr. á haustþingi, ég gerði það í 2. umr. og ég hreinlega gafst upp á að nota þetta tæki, sem hæstv. utanríkisráðherra var að beina mér að, vegna þess að ég fæ ekki svör. Svo er að sjálfsögðu afskaplega önugt til þess að hugsa að gögn sem okkur er trúað fyrir, og gert mikið úr því að við séum bundin trúnaði um, eins og umræddir tölvupóstar sem fóru á milli Indriða H. Þorlákssonar og starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, eru nú komin á netið. Hæstv. utanríkisráðherra ætlaði að fara að gefa mér pillu áðan, segja mér að ég væri of sein með þessa fyrirspurn vegna þess að ég hefði átt að vera búin að kynna mér þessi gögn. En ég er ekki að ræða í ræðustól á Alþingi einhver gögn sem ég er beðin um að halda trúnað um. Það vakti líka athygli mína að í gærkvöldi var listi um þessi trúnaðargögn sem eru í möppunni góðu í leyniherberginu kominn á netið og ég bíð bara eftir því að þau verði öll gerð opinber.

En það er annað, frú forseti, varðandi þessi gögn. Það er nefnilega þannig að ríkisstjórnin og þeir tveir flokkar sem standa að henni hafa talað mest og hæst um að nú skuli allt vera uppi á borði. Nú er Ísland orðið þannig, nýja Ísland, að leynimakkið og leyndarhyggjan, sem þau vildu meina að ráðið hefði ríkjum, eru búin. Hér á Alþingi 12. mars 2009, rétt fyrir kosningar, um það bil þegar Indriði H. Þorláksson á í þessum tölvupóstssamskiptum og beinir þeim inn á einkanetfang sitt, segir hæstv. fjármálaráðherra þetta á Alþingi sem svar við fyrirspurn frá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, með leyfi forseta:

„Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um upplýsingar spái ég því að þegar að því kemur að gögn um rannsóknir á orsökum og aðdraganda þessa Icesave-máls og hvernig það þróaðist í framhaldinu verða aðgengileg muni það þykja fróðleg lesning. Ég hef lagt ríka áherslu á það við samninganefndina að sérstaklega verði vandað til utanumhalds á öllum skjölum og öllum gögnum og bókhaldskerfi ráðuneytis notað til að tryggja að þar verði allt aðgengilegt en á meðan á samningaviðræðum stendur verða menn að sjálfsögðu að hafa ýmis slík gögn í sínum fórum.“

Þarna, 12. mars — ég vek athygli á því að tölvupóstssamskiptin á milli Indriða H. Þorlákssonar og Marks Flanagans eiga sér stað 14. apríl, mánuði síðar — leggur hæstv. fjármálaráðherra ríka áherslu á það við samninganefndina að sérstaklega verði vandað til utanumhalds á öllum skjölum og öllum gögnum og bókhaldskerfi ráðuneytisins notað til að tryggja að þar verði allt aðgengilegt.

Ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst þetta stangast pínulítið á. Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra verður að útskýra það fyrir okkur hvort það að beina tölvupóstssamskiptum inn á sinn einkatölvupóstsreikning sé það sem hann kallar að nota bókhaldskerfi ráðuneytis til að tryggja að þar verði allt aðgengilegt. Ég vil fá að vita hvort þessi einkasamskipti Indriða H. Þorlákssonar hafi verið skráð í málaskrá Stjórnarráðsins.

Frú forseti. Það er eins og áður í þessari umræðu, tíminn flýgur frá manni og ég hef ekki komist til að ræða þá efnispunkta sem ég þó ætlaði mér. Það er alltaf þannig að það koma fram nýjar upplýsingar í þessu máli og þess vegna bið ég frú forseta um að vera svo væna að setja mig aftur á mælendaskrá.