138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:10]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, ég hef ágætisreynslu af því að vinna í ráðuneyti en þó verð ég að hryggja þingmanninn með því að ég hef ekki hugmynd um hversu hátt dulkóðunarstig er á póstum sem fara í gegnum stjórnarráðspóstinn. En ég treysti því að það sé hærra en það dulkóðunarstig sem er á einkanetfangi úti í bæ sem, eins og þingmaðurinn talaði um, er haldið fram að breska leyniþjónustan hafi tök og tól til að skanna. Mér finnst við vera komin í umræðu sem er einhvern veginn meira í ætt við leyniþjónustubíómynd. Ég horfði í gær á hina ágætu mynd Karlar sem hata konur eftir Stieg Larsson og þar var einmitt tölvukunnáttumanneskja fær um að fara inn í allan tölvupóst og öll gögn alls staðar. Hvort þetta er bara í bíómyndum eða hvort þetta sé hægt er ég ekki rétta manneskjan til að dæma um. En ég treysti því að íslenska stjórnkerfið, hvort sem það er tölvupóstur frá Alþingi eða frá Stjórnarráðinu, sé þannig úr garði gert að það sé ekki hægt fyrir utanaðkomandi aðila og alla vega ekki erlend ríki sem við eigum í samningaviðræðum við að fara inn í tölvupóstssamskipti þar og lesa þau.