138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýt að gleðjast yfir því að hv. þingmaður hafi fundið tíma í gær til að fara í bíó því að það er ekki mikill tími aflögu út af Icesave-málinu en það var sunnudagur í gær.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um efni þessara skjala. Þarna kemur fram að það er tenging á milli áætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og samþykktar á Icesave. Nú hafa þeir afneitað slíkri tengingu. Hvernig á maður að meðhöndla samtök eða aðila sem verða svona tvísaga, sem segja eitt einn daginn við einn mann og eitthvað annað hinn daginn opinberlega? Þeir hafa sjálfir vísað svarta pétrinum yfir á norrænu lánin. Það kemur fram í skýrslu þeirra frá því í október þar sem sagt er að norrænu löndin hafa bundið afgreiðslu lána sinna því að Íslendingar samþykktu Icesave. Norðmenn voru fljótir að kasta frá sér svarta pétrinum með því að segja að það væri ekki rétt og þeirra lán væru opin, og sendiherra Svía hefur líka afneitað þessu. Nú er það spurningin: Hver er eiginlega með svarta péturinn? Hver er að kúga okkur? Ef enginn er að kúga okkur, hvorki Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn né Bretar eða Hollendingar, Evrópusambandið, Norðmenn eða Svíar og við getum haldið okkar áætlun í fullum takti, er þá einhver ástæða til að samþykkja það frumvarp sem við erum að ræða einmitt núna?