Almannatryggingar o.fl.

Mánudaginn 07. desember 2009, kl. 17:33:46 (0)


138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[17:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru þrjár spurningar sem ég vildi beina til hæstv. félagsmálaráðherra. Í fyrsta lagi út af fæðingarorlofinu. Hann var gerður afturreka með fyrstu hugmyndir sínar og síðan voru settar fram hugmyndir um frestun á einum mánuði af fæðingarorlofinu. Hvaða heildarúttekt hefur verið gerð og hvaða heildarmynd hefur ráðherra á þróun fæðingarorlofsins?

Ég mun fara yfir það í ræðu á eftir hvernig farið hefur verið í Fæðingarorlofssjóðinn tvisvar áður en komið er að þessum breytingum. Ég vara við því að við förum að óathuguðu máli að hrófla frekar við Fæðingarorlofssjóðnum. Það væri ágætt að fá svar um heildarmyndina.

Í öðru lagi: Hvaða samráð og samvinna hefur verið höfð við Félag eldri borgara og öryrkja? Báðir þessir hópar í samfélaginu hafa mótmælt nokkuð harðlega og þá ekki síst vinnubrögðum. Meðal annars segir Björgvin Guðmundsson, sem hefur nú ekki verið aðhaldslítill við fyrri ríkisstjórnir, með leyfi forseta:

„Ráðherrar stinga þeim ofan í skúffur. Heitstrengingar stjórnmálamanna fyrir kosningar um ný og betri vinnubrögð virðast hafa gleymst.“

Síðan segir hann:

„Það þarf að hlusta á aldraða og öryrkja og fleiri hagsmunasamtök og ekki bara hlusta.“

Það væri ágætt að vita að hvaða formlega samráð og samvinna hugsanlega hefur verið höfð við þessa hópa. Síðan vil ég gjarnan fá að vita hvort tekið hafi verið tillit til niðurstaðna mjög merkilegrar nefndar, sem m.a. Öryrkjabandalagið fagnaði sérstaklega og átti ríkan þátt í niðurstöðu þeirrar nefndar, sem þáverandi ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu og nú í félagsmálaráðuneytinu fór fyrir um breytingar á fyrirkomulagi varðandi öryrkja, hvaða möguleika þeir hafa til að vinna án þess m.a. að bætur verði skertar til að hvetja öryrkja til að taka þátt á (Forseti hringir.) vinnumarkaði, mjög merkileg skýrsla, niðurstöður sem allir fögnuðu. Var tekið (Forseti hringir.) tillit til þeirra niðurstaðna í þessu frumvarpi?