Almannatryggingar o.fl.

Mánudaginn 07. desember 2009, kl. 17:36:00 (0)


138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[17:36]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru það efnismiklar spurningar að ég er ekki viss um að mér endist örendið í fyrra andsvari til að klára þetta allt saman.

Fyrir það fyrsta, heildarmyndin í fæðingarorlofinu. Það er auðvitað svo að til okkar friðar heyrir að spara sem svarar 1,2 milljörðum til viðbótar við það sem þegar hefur verið áætlað. Hversu langt þarf að ganga í því er mjög góð spurning hjá hv. þingmanni, þetta er eitt af því sem ég held að við þurfum að hugsa. Ég tel margt benda til þess að sparnaðaraðgerðirnar í sumar hafi ekki að fullu komið fram enn þá og það megi vænta frekari sparnaðar af lækkun þaksins á greiðslunum í haust vegna þess fyrst og fremst að þeir sem eru tekjuhærri í kerfinu, sem eru að stærstum hluta karlar, eiga eftir að taka fæðingarorlofið, þ.e. þeir sem hafa rétt sem varð til eftir mitt þetta ár eiga í flestum tilvikum eftir að taka fæðingarorlofið. Það kann því vel að vera að reikniforsendurnar sem við höfum gefið okkur geri ráð fyrir of mikilli aðhaldsþörf þarna. Þetta er nokkurn veginn heildarmyndin í þessu.

Varðandi samráð. Við höfum haft mikið samráð við hagsmunasamtök. Í vor þegar við fórum í bætur til aldraðra og öryrkja áttum við vandað samráð við Landssamband eldri borgara og Öryrkjabandalag Íslands, höfðum ítrekað samráð við þau félög áður en við tókum þær ákvarðanir. Með sama hætti núna, þar sem breytingar í þessu frumvarpi snúa fyrst og fremst að öryrkjum, höfum við haft verulegt samráð við þá líka. Auðvitað er þetta hins vegar allt á okkar ábyrgð og ég get ekki skotið mér undan henni.

Varðandi breytingar sem eru gerðar hér á örorkukerfinu eru þær allar í fullu samræmi við hugmyndir starfshæfnimatsnefndarinnar sem Bolli Þór Bollason leiddi þegar hann var ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu. Það er einlægur ásetningur okkar að vinna á vorþinginu frekari breytingar til að styðja við starfshæfnimatsverkefnið og fikra okkur í áttina að upptöku þess.