Almannatryggingar o.fl.

Mánudaginn 07. desember 2009, kl. 17:38:15 (0)


138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[17:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra er auðvitað vorkunn því að hann er sjálfur búinn að segja að þetta séu vondar hugmyndir varðandi fæðingarorlofið og það er mjög vont að fylgja eftir af krafti vondum hugmyndum. Og þær eru vondar, þær eru óútfærðar, óútpældar og vanhugsaðar til lengri tíma litið, algjörlega vanhugsaðar, og ég vil sérstaklega undirstrika það.

Síðan vil ég líka draga fram — og ég þarf þá bara að lesa frumvarpið betur — en ég vil sérstaklega vekja athygli á því að hvergi í greinargerðinni með frumvarpinu er vísað til þessa starfs endurhæfingar- og örorkumatsnefndarinnar sem Bolli Þór Bollason fór fyrir og ýmsir mætir nefndarmenn sátu í, það er hvergi minnst á hana í greinargerð. Ég spyr: Af hverju ekki? Af hverju á ekki að vísa einmitt til niðurstaðna skýrslu sem allir eru sammála um eða er það kannski vegna þess að Samfylkingin vill ekki kannast við að hafa verið (Forseti hringir.) í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum?