Almannatryggingar o.fl.

Mánudaginn 07. desember 2009, kl. 17:39:22 (0)


138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[17:39]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kann ekki greinargerðina utan að, ég vil bara vitna í ræðu mína áðan þar sem ég tók það skýrt fram að þetta væri allt gert í samræmi við þá stefnumörkun sem þar hefði verið lögð upp í mikilli sátt við hagsmunaaðila og það er vissulega markmið okkar.

Varðandi hugmyndirnar um fæðingarorlofið eru þær auðvitað vondar vegna þess að þær hafa allar sína ágalla. Sú hugmynd sem ég lagði fram í upphafi fól í sér að verja að fullu og öllu leyti hagsmuni láglaunafólks og hagsmuni einstæðra mæðra en taka frekar áhættuna af því að lækkun hámarksgreiðslunnar mundi valda því að feður, sem eru yfirleitt með hærri laun, tækju síður fæðingarorlof. Lausnin sem varð ofan á á endanum ver betur þann rétt. Hvorug er fullkomin, það eru ágallar á báðum, en ég legg þetta einfaldlega fram með þessu fororði og ég tel bara ósköp jákvætt og uppbyggilegt að nefndin meti það. (Forseti hringir.) Ég er ekki óskeikull og það eru aðrir ráðherrar ekki heldur og það er mjög gott að nefndin endurmeti kosti í þessu öllu.