Almannatryggingar o.fl.

Mánudaginn 07. desember 2009, kl. 18:25:55 (0)


138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við getum þá verið sammála um það, ef ég les orð hv. þingmanns rétt og hef skilið þau rétt, að þetta er vond hugmynd eins og hæstv. félagsmálaráðherra orðaði það sjálfur. Mér finnst þetta vera uppgjöf því að eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom inn á, er verið að fara í sjóðinn í þriðja sinn. Það hefur verið skorið niður í sjóðnum, honum hefur ekkert verið hlíft og það hefur ekki verið undan því vikist fram til þessa.

Það eru sársaukamörkin sem eru komin sem ógna prinsippinu til jafnréttis, stöðu kvenna á vinnumarkaði sem hafa enn hlutfallslega lægri laun en karlar, en síðan líka hitt að þessi leið er réttilega arfavitlaus þegar tekið er tillit til hagsmuna barnsins. Það er verið að skerða rétt barnsins með þessum hætti.

Ég undirstrika þá skoðun mína að mér finnst meiri líkur en minni á að það foreldri sem er tekjuhærra verði frekar úti á vinnumarkaðnum meðan aðstæður eru eins og þær eru núna. Ótti við atvinnumissi, óttinn við að ná ekki endum saman til að borga erfið lán sem mjög margar fjölskyldur, ekki síst fjölskyldur með börn á framfæri standa frammi fyrir, þ.e. hjón á aldrinum 20–45 ára. Þetta er hinn bitri sannleikur, kaldi raunveruleiki sem við erum stödd í núna og fólk er bara raunsætt, fólk er praktískt og það velur þennan möguleika þótt draumarnir vilji kannski fara með fólk annað.