Almannatryggingar o.fl.

Mánudaginn 07. desember 2009, kl. 18:29:50 (0)


138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:29]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Málið sem hér er til umræðu, frumvarp til laga sem hæstv. félagsmálaráðherra mælti fyrir, er klárlega ekki nein skemmtilesning eða lagt fram af þeim einbeitta vilja að vilja ganga fram með þessum hætti til skerðingar. Það er alveg klárt og kom skýrt fram í máli hæstv. félagsmálaráðherra.

Það eru nokkur atriði í frumvarpinu sem ég hef svolitlar áhyggjur af, já, umtalsverðar. Í 19. gr. er ákvæði um að Framkvæmdasjóði aldraðra verði hleypt inn í rekstur hjúkrunarrýma. Það er nokkurt áhyggjuefni. Það er breyting frá því sem áður hefur verið, að vísu tímabundin, en ég vara eindregið við því að menn freistist til þess á seinni stigum að auka aðkomu framkvæmdasjóðsins, sem er fyrst og fremst hugsaður til uppbyggingar öldrunarþjónustu, að rekstri.

Einnig er í 20. gr. heimild til Íbúðalánasjóðs að veita 100% lán til sveitarfélaganna vegna fjármögnunar á byggingu hjúkrunarrýma. Mér finnst þetta ákvæði ekki nægilega skýrt, hvorki í frumvarpinu né í greinargerðinni, þ.e. hvort þarna er átt við að um sé að ræða heimild til að fjármagna að fullu lögbundinn hlut sveitarfélagsins í uppbyggingu hjúkrunarrýma eða hvort þarna er heimild til að fjármagna til að mynda uppbyggingu hjúkrunarrýma á vegum sveitarfélags sem ákveður að fara einhliða í að byggja hjúkrunarheimili. Þarna er grundvallarmunur á að mínu mati og mikilvægt að við höldum því til haga með hvaða hætti þetta er og það verður að segjast eins og er að mér finnst þetta hreinlega ekki nægilega skýrt í frumvarpsgreininni.

Varðandi fæðingarorlofsumræðuna, þ.e. þau ákvæði sem koma fram í 16. gr. frumvarpsins, hef ég eins og raunar fleiri þingmenn sem hafa tekið til máls, af því miklar áhyggjur. Ég held að áhyggjur hæstv. félagsmálaráðherra í málinu séu fyllilega réttmætar, þ.e. þarna er verið að stíga skref sem mér sýnist nokkuð klárt að enginn vilji raunverulega stíga. Ég hef heyrt í umræðunni í dag ábendingar til að mynda frá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni um aðrar mögulegar leiðir og tillögur frá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um aðrar leiðir til að afla fjár og til niðurskurðar o.s.frv. Ég hlakka til í störfum nefndarinnar að heyra þær vegna þess að komi menn fram með betri leiðir en þær sem koma fram í frumvarpinu mun ég skoða þær með opnum huga í meðförum nefndarinnar.