Almannatryggingar o.fl.

Mánudaginn 07. desember 2009, kl. 18:54:23 (0)


138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í eina tíð hækkuðu laun í landinu óskaplega mikið. Það var þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við völd (Gripið fram í: Hvað er nú orðið eftir af því?) Sú hækkun olli því að bætur fæðingarorlofs hækkuðu minna af því að þær reiknuðust 12 mánuði aftur í tímann. Þá datt mönnum það snjallræði í hug að reikna tvö ár aftur í tímann til að lækka bæturnar enn frekar. Nú þegar launin lækka í landinu, hækka bætur fæðingarorlofs miðað við laun í landinu af því að þær eru reiknaðar aftur í tímann. Mér finnst mjög eðlilegt að nefndin skoði að lækka prósentuna og spari miklu stærri upphæð en með því að lækka hámarkið, hvað þá að fresta greiðslunum. Menn þurfa að hugsa út fyrir kassann, herra forseti.

Svo langaði mig til að spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann nefndi aðra sjóði. Gert er ráð fyrir að rekstur á Íbúðalánasjóði kosti á næsta ári 1.163 milljarða með minnkandi umsvifum, gífurlega minnkandi umsvifum. Það er 10,6% hækkun frá árinu í ár á meðan öll laun eru að lækka. Ég næ ekki þessu, herra forseti.

Ég vil að hæstv. ráðherra skoði Íbúðalánasjóð pínulítið nánar og lækki hann kannski um 10% og nái þar í 110 milljarða.