138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Nú höldum við áfram umræðu um Icesave-samkomulagið, þetta hörmulega samkomulag sem ríkisstjórnin reynir hér að knýja í gegn. Þessi dagur, verð ég að segja hreint út, hefur verið nokkuð undarlegur og verður að tala tæpitungulaust um hann eins og hann hefur liðið. Við fengum strax fréttir af því í morgun hvernig samskipti til að mynda þáverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu hefðu verið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og var allt frekar vandræðalegt í kringum það. Ég kem að því síðar. Við sjáum hvernig stjórnarmeirihlutinn reynir að hlaupast undan merkjum, semur við sig innbyrðis. Það er greinilegt að hluti stjórnarmeirihlutans telur að stjórnarmeirihlutinn hafi samið af sér við okkur í stjórnarandstöðunni þegar við vildum einfaldlega framfylgja okkar einföldu kröfu um að farið verði betur yfir málið. Við erum með 16 atriði hvað það varðar.

Ég vil sérstaklega hnykkja á þeim 16 atriðum sem við náðum samkomulagi um við forseta þingsins og ég vona innilega að þetta mál leysist allt farsællega. Það verður þó að segjast hreint út að þetta er svolítið óljóst núna. Við erum búin að heyra í fréttum um hvernig fundur fjárlaganefndar fór fram í morgun. Það gengur náttúrlega ekki ef fyrrum forseti þingsins, núna formaður fjárlaganefndar, reynir að koma sér á einhvern hátt undan því samkomulagi sem gert var hér fyrir helgi. Mér er alveg sama þótt einhver hluti stjórnarmeirihlutans telji sig vera hlunnfarinn og telji að við í stjórnarandstöðunni höfum fengið miklu áorkað. Þetta snýst ekki um stjórn eða stjórnarandstöðu. Hversu oft eigum við að þurfa að segja ykkur það? Þetta snýst um það að við förum betur yfir málið og að hlustað sé á þá fræðimenn sem aðra í samfélaginu sem koma í sífellu með ábendingar sem varðandi Icesave-samkomulagið, hvernig það megi betur fara. Við skulum hafa alveg á hreinu hvaða 16 atriði það voru sem við náðum samkomulagi um við stjórnarmeirihlutann hér fyrir helgi, með leyfi forseta:

Stjórnarandstaðan krefst þess að eftirfarandi verklag verði viðhaft við meðferð málsins innan fjárlaganefndar Alþingis og annarra fastanefnda Alþingis, til að mynda efnahags- og skattanefndar. Við erum minnug þess að fjárlaganefnd leitaði eftir áliti frá efnahags- og skattanefnd, hún fékk fjögur álit af því stjórnarmeirihlutinn var náttúrlega klofinn í þeirri nefnd. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson skiluðu séráliti sem ég hvet alla, þingmenn og aðra, til að lesa, en það mátti ekki fjalla um það innan fjárlaganefndar. Þessa sögu þekkjum við og eins ofbeldið sem beitt var til þess að taka málið úr fjárlaganefnd.

En hér segir, með leyfi forseta:

Stjórnarandstaða krefst þess „… að eftirfarandi verklag verði viðhaft við meðferð málsins innan fjárlaganefndar Alþingis og annarra fastanefnda Alþingis milli 2. og 3. umræðu“.

Eftirfarandi gagna og upplýsinga verði aflað og að þeirra verði aflað frá aðilum eða stofnunum sem fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu eru sammála um að leitað verði til.

1. Lögfræðiálitum um hvort frumvarpið standist ákvæði stjórnarskrár. Það er full ástæða til þess, ég vísa í Sigurð Líndal.

2. Mat á því hversu miklar fjárhagsskuldbindingar samningarnir fela í sér.

3. Mat á hættu á því að kveða á um skilyrðislausa greiðsluskyldu á vöxtum.

4. Mat á fjárhagslegri þýðingu breytinga á efnahagslegum fyrirvörum. Það sjá það allir sem kunna að lesa að það eru breytingar á efnahagslegu fyrirvörunum. Þetta sjá allir nema þeir sem haldnir eru mikilli kergju.

5. Mat á fjárhagslegri þýðingu á breytingu fyrirvara er varða reglur um úthlutun úr þrotabúi Landsbanka Íslands hf., þ.e. hið svonefnda Ragnars Halls-ákvæði. Hann sjálfur hefur sagt að þetta sé útþynnt. Eigum við ekki að fara betur yfir það, frú forseti? Er ekki ástæða til þess?

6. Mat á gengisáhættu samninganna.

7. Mat á fjárhagslegri þýðingu þess að vextir samkvæmt samningunum séu fastir, 5,55%, en ekki breytilegir. Það eru komnar mjög þungar röksemdir fyrir því, m.a. af hálfu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar og fleiri hagfræðinga að það sé óhagstætt fyrir okkur að hafa vextina ekki breytilega.

8. Mat á þýðingu nýrra upplýsinga um mat AGS á greiðsluþoli ríkissjóðs. Það er fyllsta ástæða til þess.

9. Nánari upplýsingar frá fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, um hverjar forsendur Brussel-viðmiðanna voru. Þessu var okkur neitað um í fjárlaganefnd. Við máttum ekki kalla til þá gesti sem við vildum kalla til, það var verið að sussa málið enn og aftur niður.

10. Skýra misræmi í túlkun forsætisráðherra Íslands og Bretlands á ákvæðum samninganna.

11. Lögfræðiálit sérfræðinga í enskum lögum á texta samninganna. Þetta mátti ekki gera einhverra hluta vegna. En núna er alveg ljóst að það þarf að fara gaumgæfilega yfir allan textann í samræmi og samhengi við ensk lög.

12. Lögfræðiálit á þýðingu þess að ensk lög gildi um samningana en ekki íslensk, verði látið reyna á ákvæði þeirra fyrir dómstólum.

13. Mat á áhrifum endurskoðunar á löggjöf ESB um innlánstryggingarkerfi á skuldbindingar Íslands samkvæmt samningunum.

14. Mat á afleiðingum þess — það er mikilvægt að hlusta á þetta — að frumvarpið verði ekki samþykkt óbreytt eða að dráttur verði á samþykkt þess. Þetta er mjög mikilvægt að fjárlaganefnd fái svigrúm til að meta.

15. Þær fundargerðir, skrifleg gögn og frásagnir sem óskað hefur verið eftir á Alþingi af fundum íslenskra ráðherra og erindreka þeirra við erlenda aðila. Þetta er nú nokkuð sem menn hafa ekki viljað ljá máls á. Og þegar hv. þingmenn eins og Ragnheiður Elín Árnadóttir og fleiri hafa beðið hæstv. fjármálaráðherra eða aðra ráðherra í ríkisstjórninni um gögn, frásagnir eða minnisblöð frá þessum fundum sem hafa greinilega verið haldnir og þeir hafa sjálfir upplýst um, má ekki segja frá þeim. Leyndarhyggjan er alls ráðandi í öllu þessu eins og varðandi Indriða H. Þorláksson og ég kem betur að á eftir.

16. Lögð er áhersla á að þau atriði sem að ofan greinir, þessi 15 atriði á undan, og falla undir málasvið efnahags- og skattanefndar og eftir atvikum undir málasvið annarra fastanefnda Alþingis verði send þeim nefndum til efnislegrar meðferðar og umsagnar um þau leitað hjá viðkomandi nefndum og þau yfirfarin í fjárlaganefnd.

Þessu er mikilvægt að halda til haga og skrá í þingbækur. Það eru þessi 16 atriði sem stjórnarandstaðan vill að farið verði í innan fjárlaganefndar, eftir atvikum efnahags- og skattanefndar og hugsanlega utanríkismálanefndar líka, ef svo ber undir. Það verði engin sýndarmennska og menn afgreiði bara málið, taki það til nefndar og segi: Já, fínt, við erum búin að fara yfir þessi atriði, tveir tímar, búið. Við viljum enga sýndarmennsku, takk fyrir. Við viljum að farið sé yfir þetta, enda erum við búin að segja að við erum ekki að falla á tíma hér. Allir þeir dómsdagsfyrirvarar sem hæstv. ráðherrar hafa sett fram í þessu máli hafa sýnt sig að vera „húmbúkk“ eitt.

Atburðarás dagsins hefur verið mjög undarleg og núna eru menn að fara yfir yfirlýsinguna, hvort allt standist. Stjórnarliðar semja fyrst sín á milli af því að menn eru stressaðir: Sömdu menn af sér eða ekki? Okkar krafa í stjórnarandstöðunni er skýr: Við viljum að yfir þetta verði farið. Ég hef haldið nokkrar ræður og hef þar iðulega beint sjónum mínum og spjótum að vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Vinnubrögðin kalla fram viðbrögð í dag. Við sjáum bréfaskipti Indriða H. Þorlákssonar, sem oft og tíðum er kallaður yfirfjármálaráðherra Íslands, handbrögð hans eru auðþekkjanleg á mörgu, m.a. í athugasemdum og greinargerð með skattafrumvarpinu sem nú er komið til nefndar og þau bréfaskipti sem hann átti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er alveg makalaust að sjá hvernig samskipti hann á við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, hvernig hann reynir að draga fram að ekkert óþægilegt megi koma fram fyrir kosningar. Með þessu er verið að fara á bak við t.d. Framsóknarflokkinn, það er greinilega ekki unnið af heilindum með Framsóknarflokknum sem þó studdi þessa stjórn til valda. Það var verið að fara á bak við Framsóknarflokkinn í þessu og það finnst mér alveg makalaust, fyrir utan það að öll sú tortryggni sem sprettur upp hjá manni þegar maður sér að hann vill að fá svör í persónulegt tölvupóstfang sitt. Hvernig stendur á því? Og svo fær maður svar í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu í dag. Hvernig stendur á því að fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu bað um svör í sitt prívat tölvupóstfang? Jú, við því var einfalt svar að mati fjármálaráðuneytisins: Skeytið til Marks Flanagans var sent úr tölvupóstkerfi Stjórnarráðsins og reyndin var sú að svarskeyti bárust þangað og eru vistuð þar af því að hann taldi sig hafa auðveldara aðgengi að væntanlegu svari í þessu prívat tölvupóstfangi. Það er náttúrlega alveg makalaust. Og það er líka makalaust að ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu veit ekki að það er auðvelt að fara inn á internetið og logga sig inn á tölvupóstfang Stjórnarráðsins (Forseti hringir.) einfaldlega með því að stimpla inn „postur.stjr.is“, þá fær maður aðgang að öllum sínum tölvupósti. (Forseti hringir.) Af hverju er verið að biðja um að svona póstur sé sendur á prívat tölvupóstfang? Ég mun greina frá hver ástæðan er að (Forseti hringir.) mínu mati í næstu ræðu minni og bið um að ég verði sett á mælendaskrá núna strax.