138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta::.

76. mál
[21:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur kærlega fyrir ræðu hennar. Þar kom hún inn á þau 16 atriði sem náðist samkomulag um í gær og er undirritað af öllum formönnum stjórnmálaflokkanna sem starfa á Alþingi. Eins og staðan er núna er klukkan að verða hálftíu þennan ágæta dag, sitja þessir sömu formenn hér af því að það er svo mikill ágeiningur innan Samfylkingarinnar um þetta mál. Formaður fjárlaganefndar, að mér er sagt, virðist ekki ætla að láta segja sér fyrir verkum. Hvers lags rugl er hér eiginlega í gangi? Þetta er löggjafarsamkoman sem við erum stödd á. Hér er fundur einhver staðar í húsinu sem ég veit ekki af hverju er haldinn og allir bíða eftir því hvað kemur út úr þeim fundi.

Í máli sínu kom þingmaðurinn inn á fáránleg vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Það er svo sem ekkert nýtt og hefur margoft verið komið inn á þau í ræðum og eins hvort lögin standist stjórnarskrá, (Gripið fram í.) sem er m.a. grundvöllur þess hvort Alþingi geti sett þessi lög. Svo finnst mér eiginlega aðalpunkturinn í þessum 16 atriðum sem voru undirrituð í gær að einhvern tímann sé fengið sérfræðilegt álit frá sérfræðingum í breskum lögum. Ríkisstjórnin hafði allt sumarið til þess að fá álit frá breskum lögfræðingum á frumvarpinu en það var að sjálfsögðu ekki gert, frú forseti, því að þessi ósk kom frá Framsóknarflokknum.

Mig langar til þess að spyrja þingmann: Hvað finnst hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um vinnubrögð aðstoðarmanns fjármálaráðherra þegar hann stóð í bréfaskriftum í gegnum tölvupóst 13. og 14. apríl við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn? Nokkrir dagar í kosningar, það var verið að leyna upplýsingum fyrir þjóðinni. Telur þingmaðurinn að úrslit kosninganna (Forseti hringir.) hefðu verið öðruvísi hefði þetta verið uppi á borðum? Eða sagði þessi ríkisstjórn ósatt áfram (Forseti hringir.) til þess eins að halda völdum?