138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:20]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar í þessu Icesave-máli er stöðugt að verða skrautlegri með hverjum deginum sem líður, eða öllu heldur vandræðalegri, því að varla líður sá dagur nú orðið að ekki komi upp ný mál sem vekja í senn undrun manna og kitla hláturtaugarnar. Svo fráleitt, fáfengilegt og bjálfalegt er þetta mál allt saman að verða af hálfu ríkisstjórnarinnar að maður veit ekki almennilega hvernig maður á að bregðast við. Það er öðrum þræði mjög hlægilegt ef þetta mál væri ekki svona alvarlegt. Þess vegna er kannski hægt að segja að það sé skrautlegt mál sem ríkisstjórnin hefur sjálf komið sér í með vinnubrögðum sínum, með því hvernig hún hefur staðið að því alveg frá fyrsta degi.

Það var fyrir fáeinum dögum sem hljómaði hér mikil herhvöt úr Garðabænum um að menn ættu að ganga í takt. Þessi taktur sem maður sér að ríkisstjórnin fylgir í þessu máli, er að verða mjög skringilegur. Það hlýtur að verða æ erfiðara fyrir þá sem standa í stafni fyrir ríkisstjórnina að fylgja þessum takti því að í raun og veru veit enginn hvert þeir eru að fara eða hvaðan þeir voru að koma. Sá taktur er því mjög sérkennilegur í því ljósi.

Við höfum verið að fylgjast með því á undanförnum dögum hvernig hver hefur bent á annan í þessu máli, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Norðurlöndin, Evrópusambandið, Bretar, Hollendingar, og nú síðast er dregin upp ný mynd í þessu máli með þessum makalausu tölvupóstum sem þáverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu sendi vinum sínum í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem út af fyrir sig er heilmikil saga að segja af. Það vantar svo sem ekki innilegu ávarpsorðin: „Kæri Mark“ og „kæri Franek“, sem sýnir náttúrlega ástir þessara samlyndu hjóna. En það sem er athyglisvert í þessum tölvupósti er ekki bara tölvupósturinn sjálfur, það er í fyrsta lagi efnisatriði hans og síðan allur málatilbúnaðurinn í kringum þetta.

Það er kannski rétt að vekja athygli á því þegar maður skoðar þennan tölvupóst hverjir eru viðtakendur. Það eru náttúrlega „kæri Mark og kæri Franek“, ekki má gleyma því, og síðan eru það þrír valdir menn úr samninganefndinni, Svavar Gestsson, formaður nefndarinnar, Huginn Þorsteinsson og síðan hæstv. fjármálaráðherra. En aðrir samninganefndarmenn virðast ekki hafa verið taldir verðugir að fá afrit af þessum tölvupósti. Það sem vekur síðan athygli er það að hinn æruverðugi embættismaður sem póstinn skrifar leggur mjög upp úr því að velta fyrir sér hinum pólitíska veruleika sem hann býr við. Hann telur að það væri pólitískt ómögulegt að ná niðurstöðu í þessu máli fyrir kosningarnar sem þá áttu að verða hálfum mánuði síðar. Síðan segir hann, sem mér finnst ákaflega athyglisvert, að það sé ekki hægt fyrir kosningar og sennilega yrði það líka mjög erfitt nokkuð lengi eftir kosningar.

Þetta finnst mér kalla á ákveðnar skýringar. Hvað er það sem gerir það að verkum að hægt væri eftir einhvern tíma eftir kosningar að fá niðurstöðu í málinu? Það er ljóst mál að hér er embættismaðurinn að færa rök fyrir því að þetta sé erfitt mál, vont mál, en það er eins og hann gefi sér að eftir kosningar muni ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem allt stefndi auðvitað í á þessum tíma, sitja áfram. Þá yrði hún búin að vinna með þeim hætti að fólk væri farið að venjast hinu vonda svo vel að hægt yrði að bæta við svona einu stykki Icesave. Fólk væri þá illu vant og gæti látið sig hafa það að kyngja þessum samningi. Ég skil út af fyrir sig að það sé hans pólitíska mat að ekki sé nú gott að henda inn einu Icesave-samkomulagi korteri fyrir kosningar. Mér sýnist að það sé líka hans mat að fólk verði að jafna sig að venjast þessum erfiðu aðstæðum sem ríkisstjórnin mun kalla yfir það, þannig geti það smám saman kyngt þessu erfiða samkomulagi.

Ef maður síðan les bréfið til kæra Franeks og kæra Marks kemur þar margt athyglisvert fram. Þar segir ráðuneytisstjórinn t.d. að markmiðið með þeim hugmyndum sem hann segist hafa kynnt vinum sínum í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum allnokkru áður, sé að forðast að samningurinn leiði til þess að ríkisskuldirnar aukist og að menn beri þungar vaxtabyrðar. Hann telur að sú leið sem hann veltir fyrir sér muni hafa hliðsjón af því tekinn sé með í reikninginn sá skaði sem Bretar hafa valdið með hryðjuverkalögunum. Hann telur að hugmynd sín muni auðvelda það að taka með í reikninginn sameiginlega ábyrgð Evrópuríkja vegna þeirra skaðlegu reglna sem gilt hafa um innlánstryggingar.

Veltum nú aðeins fyrir okkur því samkomulagi sem síðar kom, þeirri niðurstöðu sem borin var á borð fyrir okkur þingmenn í sumar í hinu fyrra Icesave-máli. Tóku menn eftir að í því samkomulagi væri forðast að auka ríkisskuldirnar? Ekki aldeilis. Kom þar fram að mikillar sanngirni væri gætt varðandi vextina á því láni sem Bretar og Hollendingar ætluðu allra náðarsamlegast að veita okkur? Ekki aldeilis. Það er búið að sýna fram á að það er hreint vaxtaokur. Þetta er gróðabrall ríkisstjórna Hollands og Bretlands á kostnað Íslendinga með þeim okurvöxtum sem þeir leggja á okkur með þessu samkomulagi. Er á einhvern hátt tekið með í reikninginn sá skaði sem Bretar ollu okkur vegna hryðjuverkalaganna? Muna menn eftir hvernig Bretar og Hollendingar hegðuðu sér og íslenska ríkisstjórnin kyngdi með glöðu geði og varði alveg sérstaklega þegar ríkisstjórnir Bretlands og Hollands sendu okkur síðan til viðbótar aukareikning samþykktan og uppáskrifaðan af hæstv. fjármálaráðherra fyrir kostnaði sem þeir höfðu haft af einhverju umstangi við það að greiða út til innstæðueigenda Icesave í Bretlandi? Það var þriggja milljarða reikningur sem átti að borga, ekki satt? Lögfræðikostnaður, alls konar slíkir hlutir, tebollar, kostnaðurinn við að laga te, leigubílakostnaðurinn — allt þetta var samviskusamlega tíundað til þess að undirstrika að þeir hefðu svona næman skilning á þeirri kröfu okkar að tekið yrði tillit til harkalegra afleiðinga af hryðjuverkalögunum í Bretlandi.

Ef við síðan förum svo yfir viðbrögð Marks Flanagans, sem skrifaði síðan bréf í framhaldinu til „kæra Indriða“, segir hann, sem er út af fyrir sig athyglisvert í ljósi þess sem komið hefur fram hjá forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að það sé ákaflega erfitt að takast á við endurskoðun efnahagsáætlunarinnar milli Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrr en komið sé samkomulag milli íslenskra stjórnvalda og stjórnvalda í Bretlandi og Hollandi. Þarna segir sem sagt sá sem ber ábyrgð á þessu máli gagnvart Íslandi að það sé erfitt að ljúka endurskoðun á efnahagsprógrammi Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrr en komin sé niðurstaða í viðræður okkar við stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi.

Síðan segir sá merki Flanagan að þessi tillaga frá Íslandi taki auðvitað mið af pólitískum veruleika. Hann skilur mjög vel að þetta þurfi að hafa einhvern tíma, en segir síðan í lok bréfs síns: „Það hlýtur að vera einhver leið til þess að útskýra þetta lán gagnvart íslensku þjóðinni og róa mannskapinn.“ — Og róa mannskapinn.

Það er auðvitað það verkefni sem verið hefur verkefni ríkisstjórnarinnar, að róa íslensku þjóðina gagnvart þessum Icesave-samningi, en niðurstaðan er sem sagt sú að nú vísar hver á annan, enginn vill bera ábyrgðina. Öllum er ljóst að verið er að leggja ofurbyrðar á okkur þrátt fyrir að fyrirheit hafi verið gefin um annað og þrátt fyrir að talað hafi verið um það í samningsmarkmiðunum að þetta mætti ekki vera ofviða greiðslugetu okkar gagnvart útlöndum, sjá allir í hvað stefnir. Þetta mál er því allt að verða jafnfáránlegt eins og til þess var stofnað í upphafi.