138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þátttöku hennar í þessari umræðu núna. Það er auðvitað mjög athyglisvert sem hún komst að niðurstöðu um, að við værum orðin eins konar auðlind fyrir aðrar þjóðir til þess að níðast á og að þar ætti að ná út úr okkur sem allra mestum peningum, eins og kemur glögglega fram í þessum vaxtaútreikningum sem við höfum þegar farið mjög rækilega yfir.

Eitt sem stakk í augun þegar ég las yfir bréfið til kæra Indriða frá Mark Flanagan. Það var þegar Flanagan sagði í bréfi sínu að þeir í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefðu útskýrt það fyrir samningsaðilum okkar, Hollendingum og Bretum, að samkvæmt nýjum upplýsingum sem þeir hefðu um skuldir Íslendinga gagnvart útlöndum væri minna svigrúm til þess að aðhafast gagnvart okkur en menn töldu áður bæði varðandi skilmála á lánunum og lánin sjálf. Með öðrum orðum, það sem kemur greinilega fram að mati fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að möguleikar íslensku þjóðarinnar til þess að standa undir þessum skuldbindingum eru, þegar betur er að gáð, minni en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði talið í upphafi.

Við hljótum þá að velta því fyrir okkur: Kemur þetta með einhverjum hætti fram í þeim samningum sem síðar voru kynntir fyrir okkur? Var t.d. greiðsluskuldbindingin lækkuð í pundum eða evrum talið? Nei. Var farið vægar með okkur varðandi vextina en ætlunin var áður? Nei, ekkert af þessu var gert. Meira að segja er það svo að þegar búið var að samþykkja hér á Alþingi ákveðna skilmála af hálfu þingsins drógu þessir herramenn í Bretlandi og Hollandi með samþykki ríkisstjórnar okkar (Forseti hringir.) úr vægi þessara efnahagslegu fyrirvara.