138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé nú hvað það hefur verið hollt fyrir íslensku þjóðina að fá að sjá þetta skjal sem var undirritað í apríl því að það eru alveg nýjar upplýsingar sem koma fram í þessu skjali samanber það sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom inn á áðan, þ.e. það var skilningur Indriða á þessum tíma að taka ætti sameiginlega ábyrgð á þessu gallaða regluverki Evrópusambandsins eða það var a.m.k. einhver ósk um það. Þessi bréfaskipti virðast hafa byggst upp á einhvers konar óskum og óraunhæfum væntingum og við vorum pínulitlar undirlægjur sem lögðust á hnén fyrir þessa aðila. Við skulum ekki gleyma því að þessi maður var á sínum tíma ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, hvorki meira né minna, þannig að hann skrifar þetta bréf í krafti síns embættis þó að hann hafi viljað hafa öll samskipti í gegnum einkanetfang sitt. Það er náttúrlega alvarlegasti hluturinn í þessu að það setur þetta í svo mikinn leyndarhjúp. Við verðum því að átta okkur á því að hvaða leyti og í hvaða umboði þessi maður skrifar þessa pósta á þessum tíma. Það hlýtur að hafa verið í umboði ráðherrans sjálfs, það getur ekki annað verið fyrst ráðuneytisstjóri vinnur svo náið með ráðherra sínum.

Það hefur verið útbreidd skoðun í Evrópu allt þar til bankarnir féllu hér á Íslandi, og dómar Evrópudómstólsins hafa sannað það, að það var útbreidd skoðun að innstæðutryggingarsjóðirnir væru ekki með ríkisábyrgð og það hefur margoft komið fram í ræðum mínum. Nú hafa Evrópusambandsríkin samþykkt nýja reglugerð sem segir að það skuli vera ríkisábyrgð á þessum sjóðum. Telur ráðherrann að atburðir á Íslandi hafi orðið til þess að þetta fordæmi að hinni nýju reglugerð varð til og tók (Forseti hringir.) gildi nú í júní 2009?