138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir, ég er búin að segja það hér áður og það vita það allir sem vilja vita, að Samfylkingin er mjög ósátt og deilir innbyrðis. Það minnir mig á áskorun sem samfylkingarfélagið í Garðabæ sendi frá sér til Vinstri grænna um að ganga í takt. Ég held að það væri tilefni fyrir Vinstri græna að senda Samfylkingunni áskorun um að hún gangi nú einu sinni í takt í þessu máli.

Ég vil að gefnu tilefni hvetja hæstv. forseta til þess að gera fundarhlé meðan menn ráða hér ráðum sínum. Ég held að það væri til bóta fyrir meðferð málsins að gert verði hlé á fundum þingsins meðan menn eru að átta sig á því hvernig leiða eigi þessi mál til lykta, mál sem voru alveg á hreinu fyrir helgi. En af því að Samfylkingin getur ekki sætt sig við þetta samkomulag er öllu málinu hleypt í loft upp.