138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:47]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég átta mig ekki alveg á hvert vandamálið er. Það samkomulag, sem forsetinn hafði forustu um að gera við forustumenn stjórnarandstöðunnar og undirritað var, var síðan borið undir mig og ég féllst á það fyrir mitt leyti. Ég er aðili að því þannig að það liggur a.m.k. ljóst fyrir að það er ekki vandamál af okkar hálfu. (Gripið fram í.) Ég hef ekki vitað annað en að eftir því væri unnið. Ég hafði í framhaldinu samband við formann fjárlaganefndar og hann taldi að það væru engin vandkvæði því samfara að nefndin gæti unnið úr þeim óskum sem þar voru settar á blað þegar málið yrði komið til nefndar. Þannig skildi ég grundvöll samkomulagsins og skil enn.

Það er að vísu mjög sögulegt að hér sé undirritað samkomulag af þessu tagi, venjan hefur verið sú að orð hafa dugað hér í sölum Alþingis eða í hliðarsölum, í mesta lagi handsal. Þetta var engu að síður gert svona í þessu tilviki og einu sinni er allt fyrst. Sú var tíðin að mönnum dugðu orð hér í sölum Alþingis en þarna er undirritað samkomulag sem ég fyrir (Forseti hringir.) mitt leyti hef lýst mig samþykkan og vil vinna að að haldi. Ég geng að sjálfsögðu út frá því þangað til annað kemur í ljós (Forseti hringir.) að við það verði staðið og hér verði greidd atkvæði að lokinni 2. umr. upp úr hádegi á morgun. (Gripið fram í.)