138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:51]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að skýra málið fyrir sitt leyti en það vekur óneitanlega eftirtekt að hér í salnum eru sjálfstæðismenn og vinstri grænir. Ég get ekki séð neinn samfylkingarmann hér og það lítur þannig út að herkvaðningin úr Garðabæ hafi virkað. Nú ganga Vinstri grænir í takt allir sem einn og lýsa sig samþykka því samkomulagi sem undirritað var hér og það er gott. En þá vantar hinn stjórnarflokkinn og liðsmennina í marseringunni til þess að segja okkur að þetta standi. Það getur ekki verið, fyrst þetta liggur svona allt beint við, eins og hæstv. fjármálaráðherra segir, að allt sé í uppnámi í þingsalnum.

Hins vegar get ég svo tekið undir með hæstv. fjármálaráðherra að það er viss eftirsjá í gömlu góðu dögunum þegar orð og jafnvel (Forseti hringir.) handsal voru nóg til þess að menn stæðu við sitt hér í þingsalnum.