138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:42]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Það liggur fyrir samkomulag á milli stjórnarandstöðunnar og forseta Alþingis sem formenn stjórnarflokkanna og núna formaður fjárlaganefndar hafa samþykkt. Ég vil bara byrja á að segja að ég er ekki sátt, ég er alveg geysilega ósátt. Ég er mjög ósátt við allt þetta mál, ég er mjög ósátt að við skulum ekki hafa getað komið þessu máli út af borðinu og að við skulum ekki hafa getað farið í þann leiðangur sem framsóknarmenn lögðu til í sumar og fengið klárustu og færustu samningamenn í heimi til þess að semja fyrir okkur og reyna að koma heim með eitthvað sem við getum raunverulega staðið undir. Ég stend því hérna og verð að segja að ég er mjög sorgmædd og ég veit ekki almennilega hvernig ég á að koma orðum að því hvernig mér líður að horfa fram á að þetta mál fari hugsanlega í gegnum þingið eins og það liggur núna fyrir.

Þegar þessi umræða byrjaði bar ég alla vega þá von í brjósti að það væri raunverulega hægt að fá stjórnarliða til þess að skilja rök okkar, að skilja hversu ómögulegt þetta mál er. Eftir því sem leið á umræðuna og því eftir því sem færri stjórnarliðar tóku til máls fór ég að velta fyrir mér hvort ég þyrfti ekki að setja mig í spor stjórnarliða. Fyrst stjórnarliðar voru ekki tilbúnir til þess að koma upp í ræðustól og segja okkur hvað þeir væru að hugsa, þyrfti maður sjálfur að reyna að ímynda sér hvað það gæti verið sem fengi gott fólk, fólk sem ég vinn með daglega, til þess að leggja þessar byrðar á íslenskan almenning.

Mig langar til þess að vitna í pistil eftir Hrannar Baldursson sem ég rakst á á vefnum núna um helgina þar sem hann skrifar, með leyfi forseta:

„Að samþykkja Icesave eins og frumvarpið er í dag er að stökkva fram af himinháum kletti án öryggisnets, vængja, fallhlífar eða gúmmíteygju. Þó að maður stökkvi fram af fjalli geti mótvindur kannski verið nógu mikill til að maður lifi fallið af […] Hvernig er hægt að sannfæra manneskju sem ætlar að taka slíkt stökk um að það sé hættulegt, að hún geti dáið, og ef hún vill ekki að hlusta og ásakar viðmælandann einfaldlega um að dramatísera hlutina, hvernig er hægt að sannfæra slíka manneskju og hvað getur maður gert ef hún hefur þúsundir manna í eftirdragi og ætlar að stökkva fyrst og láta alla hina fylgja á eftir, með góðu eða illu?“

Ég skrifaði síðan sjálf pistil um helgina einmitt um þetta, þ.e. eftir að ég var búin að velta fyrir mér þessu: Hver eru meginrök þeirra sem eru hlynntir málinu og vilja samþykkja Icesave og hver eru meginrök okkar sem viljum ekki samþykkja Icesave? Niðurstaða mín var sú að við sem erum á móti málinu höfum farið í gegnum gögn málsins og komist að þeirri niðurstöðu að það er mikill vafi sem leikur á greiðsluskyldu okkar. Þó að við séum tilbúin að samþykkja greiðsluskylduna sem pólitíska lausn eða niðurstöðu, fáum við ekki séð hvernig í ósköpunum við eigum að geta borgað, hvernig í ósköpunum við eigum að geta staðið undir þessum samningi. Við trúum því að ef við skrifum undir sjálfskuldarábyrgð, ef við ætlum að ábyrgjast eitthvað, að við séum að lofa því að borga hvernig svo sem við förum að því. Við trúum því að ef við gefum einhverjum veð í húsinu okkar og viðkomandi getur ekki staðið undir þeirri skuldbindingu verði gengið að húsinu okkar.

Einhvern veginn virðist sú reginfirra vera til staðar hérna í þinginu hjá þeim sem ætla sér að samþykkja þetta mál að þeir trúa því, að því er virðist vera af mikilli sannfæringu, að við eigum að borga en af einhverri ástæðu verðum við ekki látin borga. Sagt er að við þurfum að axla þessa ábyrgð þó að það standi jafnvel í þessu frumvarpi að okkur beri ekki skylda til að borga. Formaður samninganefndarinnar frá því í sumar talaði um að við þyrftum að taka þessar byrðar á okkur eins og Kristur á krossinum en síðan heyrir maður í einkasamtölum og jafnvel í fjölmiðlum að við verðum ekki látin borga. Af einhverjum ástæðum muni þeir sem við erum að semja núna við sjá það árið 2015, ef staðan verður það erfið, og láta þessar skuldir falla niður.

Ég vil minna alþingismenn á að það var lítil frétt núna á mbl.is, held ég, þar sem verið var að ræða um skuldir þýska ríkisins frá því í fyrri heimsstyrjöldinni. Þjóðverjar höfðu fengið frest á því að greiða þessar skuldir 1952 en eftir að þýska ríkið var sameinað varð þessi skuldbinding aftur gild þannig að þýska ríkið er enn þá að borga stríðsskaðabætur frá því í fyrri heimsstyrjöldinni. Ég hef heyrt eitthvað svipað varðandi franska ríkið, að Frakkar séu enn þá að borga skuldir sem Napóelon stofnaði til — Napóelon. Í mínum huga er það því algjörlega á hreinu að ef þetta frumvarp og þessi ríkisábyrgð verða samþykkt mun íslenskur almenningur, íslenskir skattgreiðendur, við sem búum á Íslandi, borga það. Eftirstöðvarnar, sem verða vextirnir meira og minna, verða eftirstæðar kröfur.

Það hefur líka komið fram, m.a. í orðum hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra að þeir kvarta undan því að það sé skortur á bjartsýni hjá okkur í stjórnarandstöðunni. Ég hafna þessari hugmyndafræði ráðherranna algjörlega. (Gripið fram í.) Ég vil hafna þessum málflutningi og ég vil fá að kynna fyrir ráðherrunum hugtakið „bjartsýnisvillu“. Það sem við sjáum endurspeglast í þessum orðum forustumanna ríkisstjórnarinnar er bjartsýnisvilla í stað gagnrýnnar hugsunar og ákvarðanatöku sem byggir á skynsemi og raunverulegu áhættumati. Það hefur aldrei verið unnið áhættumat á þessari stærstu einstöku skuldbindingu íslenska ríkisins, aldrei.

Talað er um bjartsýnisvillu sem grundvallarmistök í verkefnastjórnun og hún birtist í kerfisbundinni tilhneigingu fyrir fólk að vera of bjartsýnt um útkomu áætlaðra aðgerða. Þetta inniheldur ofmat á líkindum jákvæðra atburða og vanmat á líkindum neikvæðra atburða. Þetta er ein af mörgum tegundum jákvæðrar tálsýnar sem fólk er almennt veikt fyrir.

Það hefur ekkert áhættumat verið unnið hérna. Það er engin áætlun til um greiðsluflæði þjóðarbúsins. Landsvirkjun vann mjög vandað áhættumat þegar hún fór í Kárahnjúkavirkjun og þar vorum við bara að tala um fjárfestingu upp á 100 milljarða. Hér stöndum við og erum búin að ræða þetta mál í sex mánuði. Málið kom fyrst hérna á borð Alþingis fyrir síðustu áramót, í nóvember, desember, og það er ekki enn þá búið að vinna neitt áhættumat.

Sagan segir okkur, og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands benti á þetta, að það væri varasamt að byggja of mikið á sögulegum staðreyndum vegna þess að kreppan sem við erum að fást við hérna núna á Íslandi er alvarlegri og dýpri en aðrar kreppur sem Ísland hefur gengið í gegnum. Hún er alvarlegri og dýpri en flestar af þeim fjármálakreppum sem önnur lönd sem við berum okkur saman við hafa gengið í gegnum.

Það er komin niðurstaða varðandi 2. umr. og ég er ekki sátt. En ég ber enn þá þá von í brjósti að í þeirri vinnu sem fer fram á milli 2. og 3. umr. komi fram fleiri rök og að við getum hugsanlega læknað stjórnarliða af þessari bjartsýnisvillu, af þessum ranghugmyndum sem við sjáum endurspeglast í orðum þeirra fárra sem hafa tekið til máls hérna. Að þeir séu tilbúnir til þess að hlusta á rök en trúa ekki bara blint, stökkva ekki án fallhlífar, því að þjóðin hlýtur að vera þess virði.