138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður endaði sína góðu ræðu á því að nefna fyrirvarana sem samþykktir voru hér í sumar og ég vil þakka honum og öllum þeim þingmönnum sem að þeim stóðu vegna þess að sannarlega bættu þeir stöðu Íslendinga. (Gripið fram í.) Sem betur fer eru þeir fyrirvarar nánast allir enn þá inni (Gripið fram í.) í því frumvarpi sem verið er að samþykkja (Gripið fram í.) utan einn. En ég ætla ekki að fara út í það. Ég ætla hins vegar að þakka … (Gripið fram í.) Ja, ég er reiðubúinn til þess að vera … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Gefið ráðherra hljóð.)

Frú forseti. Ég get trúað forseta fyrir því að mér finnst heldur betra þegar þetta fólk hrópar fram í, það gerir umræðuna bara skemmtilegri. Ég vildi segja það við hv. varaformann Sjálfstæðisflokksins að ég er alveg reiðubúinn til þess að vera hér í nótt og hlusta á hana og eftir atvikum að svara henni ef það er vilji stjórnarandstöðunnar. (Gripið fram í.)

Efni ræðu minnar er tvíþætt. Ég ætla í fyrsta lagi að þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir að koma þó hér upp og segja, þrátt fyrir að honum finnist ríkisstjórnin vera ómöguleg — og er hann fyrsti þingmaðurinn sem hefur sagt það í dag af hálfu stjórnarandstöðunnar — að hvað sem um ríkisstjórnina megi segja hafi hún unnið eftir bestu sannfæringu, bestu getu og bestu vitund. Auðvitað er það þannig. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar geta auðvitað komið hér og sagt að hún hafi staðið sig illa. En að tala eins og menn hafa gert hér í dag, m.a. varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og segja að menn hafi beinlínis sagt ósatt, eða eins og hv. þingmaður annar sagði, að menn hafi logið, er aðeins of langt gengið. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Menn velta því fyrir sér hver eigi að halda á hinni heitu kartöflu, en hver var það sem stoppaði endurskoðunina? Hv. þingmaður bendir á Svía, Norðmenn eða AGS. Ég ætla að rifja það upp fyrir hv. þingmanni hvað stendur í norrænu þingskjölunum, hv. þingmaður ætti að kynna sér það. Það er t.d. alveg ljóst hvað Norðmenn voru að samþykkja. Þegar utanríkisráðherrar Norðurlandanna voru hér saman með blaðamannafund kom það alveg skýrt fram hjá utanríkisráðherra Noregs, Jonas Gahr Støre, ekki eins skýrt hjá hinum, og varð tilefni Stöðvar 2 til þess að segja: Misvísandi yfirlýsingar. Jonas Gahr Støre sagði algjörlega satt á þeim blaðamannafundi.