138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum hér nokkur stödd í þingsal og erum að velta fyrir okkur af hverju meiri hlutinn ætlar að samþykkja þetta Icesave-frumvarp. Ég man eftir skopmynd sem Halldór Baldursson teiknaði í Morgunblaðið þar sem hann benti á að Steingrímur J. Sigfússon, hæstv. fjármálaráðherra, reri að því öllum árum að taka hér aftur upp árið 1979, hann ætlaði sér ekki að nota tímann vel, það væri ógjörningur, en hann ætlaði sér hins vegar að beita pólitísku handafli. Ég velti því fyrir mér í ljósi þeirra ummæla sem þingmaðurinn lét falla hér áðan um grein hv. þm. Ögmundar Jónassonar hvort Vinstri grænir og Samfylkingin — en þeir vilja samþykkja Icesave — beiti hér pólitísku handafli og beygi þá sem voru eitt sinn með efasemdir í málinu og hvort þjóðin verði ekki jafnvel komin á þann stað sem hún var árið 1979. Við horfum upp á að skatttekjur um 80 þúsund Íslendinga, sem er meira en helmingur skattgreiðenda, muni renna í það að borga aðeins vexti af Icesave-láninu og það á því sjö ára tímabili sem við eigum að vera í skjóli. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. Birgir Ármannsson sé búinn að velta þessari staðreynd fyrir sér.