138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru einkum tvö atriði sem ég vil bregðast við í þessari ræðu.

Áður en ég svara spurningunni vil ég taka það fram að ég ætla hæstv. fjármálaráðherra ekki illan ásetning í þessu máli frekar en í öðrum málum. Ég ætla það að hann telji sig vera að gera rétt. Það breytir ekki því að ég tel að í þessu máli hafi hæstv. fjármálaráðherra gert alveg dæmalaus axarsköft, ef við getum orðað svo, frá því að það hófst, að þetta mál hafi í rauninni verið klúður á klúður ofan eins og haldið hefur verið á því. En ég ætla hæstv. ráðherra ekki illan ásetning.

Hins vegar varðandi það sem hv. þingmaður nefnir, að hæstv. fjármálaráðherra fari með okkur 30 ár aftur í tímann í tímavél, er auðvitað margt í stefnu þessarar ríkisstjórnar sem bendir í þá átt. Ég held t.d. að þær tillögur um skattamál sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram hér á þingi og eru komnar til nefndar, fari með okkur einhver ár ef ekki áratugi aftur í tímann. Ég óttast það því miður vegna þess að ég held að þarna sé um stórskaðlegar tillögur að ræða sem muni, þegar heildstætt er litið á þær, leiða til þess að kreppan sem við eigum við að stríða núna, muni dýpka og framlengjast og það verði miklu erfiðara fyrir okkur að ná okkur upp úr vandanum en ella.

En síðan get ég alveg tekið undir þau orð hv. þingmanns sem settar voru fram í spurningarformi, að ég tel að verið sé að beita miklu handafli hérna og knýja stjórnarliða til (Forseti hringir.) stuðnings við málið.