138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna þessara síðustu orða hennar, um að ekkert liggi á, og ekkert hafi komið fram o.s.frv.: Getur verið að heilbrigð skynsemi hafi yfirgefið hv. þingmenn stjórnarliða og hvað getur hafa valdið því að þeir taka ekki þessum rökum? Við höfum svo sem rætt það hér áður að það geti verið vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra sé tvisvar búinn að skrifa undir samkomulag við eitthvert fólk úti í heimi eða ríkisstjórnir og verði þar af leiðandi að standa við það og þyki sér það skylt. Síðan hefur mjög margt komið í ljós sem segir að það er enginn þrýstingur lengur á það að við skrifum undir þetta, það eru ekki lengur ógnanir og hótanir eins og voru stöðugt, sérstaklega í byrjun, eftir hrunið. Þannig að þessi þrýstingur hefur farið mjög hratt minnkandi.

Nú er spurningin: Nú standa hv. þingmenn stjórnarliða og hlusta á þessa umræðu og heyra af henni og hljóta að átta sig á því að það er enginn þrýstingur lengur, það hefur enginn komið með nein almennileg rök fyrir því. Getur verið að menn haldi bara sjálfvirkt áfram eins og vél sem hlustar ekki og heyrir ekki og skilur ekki? Getur verið að öll heilbrigð skynsemi hafi yfirgefið stjórnarliða?