138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér er tjáð að hér hafi verið gert samkomulag um eitthvað og ég hygg að hv. fjárlaganefnd muni fara mjög nákvæmlega í gegnum allt það sem á að gera. Síðan kemur málið til 3. umræðu og þá verður nákvæmlega sama þögnin, frú forseti. Þá verður bara nákvæmlega sama staðan. Stjórnarliðar munu ekki taka þátt í umræðunni. Þeir munu ekki hlusta á rökin sem koma fram, nýju rökin, að við eigum ekki að borga, að við þurfum ekki að gera þetta strax, að áhættudreifingin sé alveg glötuð og ég veit ekki hvað, eins og ég hef nefnt. Ég óttast, frú forseti, að það muni ekki gerast.

Það er ekki bara ég sem óttast það, 30.000 Íslendingar, 31.075, óttast það líka — einhver hluti af þessu er kannski „feik“, en alla vega eru það um 30.000 Íslendingar sem óttast það líka. Þeir eru núna að skrifa bænaskjal, undirskriftalista, til forseta lýðveldisins, Ólafs Ragnars Grímssonar, um að hann neiti að skrifa undir lögin ef þau verða samþykkt. Það þýðir að allt þetta fólk óttast um meðvitundarleysi stjórnarliða, og þeim fer hratt fjölgandi með hverjum deginum. Með hverjum klukkutímanum, frú forseti, fjölgar þeim Íslendingum sem efast um heilbrigða skynsemi hjá stjórnarliðum. Þeir eru hræddir. Ég er sömuleiðis hræddur og þess vegna held ég hérna ræðu eftir ræðu.