138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Mig minnir að ég hafi verið kominn að atriði nr. 54. Ég var að fjalla um það að bresk stjórnvöld hefðu á sínum tíma, þegar bankakrísan var sem skæðust og bankar féllu víða um lönd, komið nánast öllum breskum bönkum til aðstoðar en þó ekki þeim bönkum sem voru í eigu íslenskra banka þrátt fyrir að þeir væru einnig breskir bankar. Í Bretlandi eru bankar í eigu annarra banka og fyrirtækja víða um heim en það voru bankarnir sem voru í eigu Íslendinga sem ekki hlutu aðstoð, þvert á móti voru þeir beinlínis felldir að tilstuðlan breskra stjórnvalda. Ekki er þar með sagt að þeir hefðu örugglega komist af ef ekki hefði verið fyrir afskipti breskra stjórnvalda, um það er sjálfsagt erfitt að segja. En það liggur þó fyrir, frú forseti, að þessir bankar, þessir bresku bankar í íslenskri eigu, Heritable-bankinn, sem var í eigu Landsbankans, og Singer & Friedlander banki í eigu Kaupþings, voru betur stæðir — og þetta vitum við vegna þess að nú er búið að fara í gegnum eignir þessara banka og stöðu þeirra eftir að þeir féllu — en margir þeirra bresku banka sem bresk stjórnvöld hjálpuðu og eru enn í fullum rekstri. Menn geta spurt sig hver staðan væri ef bresk stjórnvöld hefðu ekki hagað sér með þessum hætti gagnvart þeim bönkum sem voru í eigu íslenskra fyrirtækja.

Í öllu falli er ljóst að aðgerðirnar höfðu veruleg áhrif á verðmæti þessara banka. Á hverjum bitnar það, frú forseti? Það bitnar á íslenska ríkinu og íslenskum skattgreiðendum. Raunar hafa verið færð fram rök fyrir því að Kaupþing hefði hugsanlega getað lifað af ef það hefði hlotið sams konar stuðning og bresku bankarnir. Ég skal ekki fullyrða um það en þó er ljóst að breskir bankar, ýmsir sem enn eru starfandi, voru engu betur staddir en Singer & Friedlander Kaupþingsbankinn sem þó var felldur af breska ríkinu. Ekkert tillit hefur verið tekið til þessa, frú forseti. Ekkert tillit hefur verið tekið til þess hvaða tjón varð þarna þegar stærsta fyrirtæki Íslands féll. Með því töpuðu 30.000 Íslendingar, mikið af því eldra fólk sem hafði fjárfest fyrir sparifé sitt í hlutabréfum, fjárfestingu sinni. Ekkert tillit var tekið til þess þegar þessir samningar, sem kalla mætti stríðsskaðabótasamninga, sem menn hafa kallað hina nýju Versalasamninga, voru gerðir.

Nr. 55 er sú staðreynd, og það er nú reyndar tengt 54, að í fjármálakerfinu í Bretlandi, rétt eins og í Bandaríkjunum og á Íslandi, voru bankar reknir með ósjálfbærum hætti. Þeir höfðu tekið óhóflega mikið að láni og lánað til annarra fram og til baka, oft í tilteknum afmörkuðum hópi, og gríðarlega mikla óefnislegar eignir, einhvers konar viðskiptavild, var þar undirstaða frekar en raunveruleg verðmætasköpun. Þessi staða er enn fyrir hendi í Bretlandi. Þar eru enn, og reyndar víðar, reknir bankar sem hafa á bókum sínum gríðarlegar óefnislegar eignir og töpuð útlán og í rauninni hefur verið sýnt fram á að þeir muni eiga mjög erfitt, margir hverjir, með að verða nokkurn tímann almennilega sjálfbærir. En þeir þrauka vegna óhemjuhárra styrkja frá breska ríkinu.

Hvað hafa Íslendingar lagt af mörkum við að breyta viðskiptaháttum í fjármálageiranum nú þegar heimsfjármálakrísan er búin að sýna fram á galla kerfisins á Íslandi náttúrlega eins og frægt er, en líka í Bretlandi, Bandaríkjunum og víða um heim? Hefur Ísland boðist til að verða einhvers konar rannsóknarstöð í því hvað fór úrskeiðis, einhvers konar fyrirmynd jafnvel í því hvernig megi bæta úr? Nei, þvert á móti, Ísland hefur með þessum Icesave-samningum fallist á að verða eins konar blóraböggull, meðvirkt í því að fela gallað kerfi þannig að menn geti í Evrópusambandsríkjunum haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist með verulega gallað fjármálakerfi þangað til það einhvern tímann í framtíðinni fellur hugsanlega á ný. Þá verður væntanlega orðið of seint fyrir Íslendinga að ætla að nýta reynslu sína öðrum til viðvörunar því að búið var að snúa þeirri reynslu upp í það að gera Ísland að blóraböggli svo að vitleysan gæti haldið áfram annars staðar.

Ég segi þetta vegna þess að Icesave-samkomulagið er gert á þeim forsendum að hér hafi verið um einhvers konar þjóðarábyrgð Íslendinga að ræða, á meðan ekkert slíkt er til skoðunar annars staðar, á meðan bankarnir komast upp með það í Bretlandi að halda áfram að borga starfsmönnum sínum bónusa sem nema jafnvel milljónum punda, halda áfram sömu rekstrarháttum og áður, en tekst að líta fram hjá því vegna þess að Ísland er afskrifað sem eitthvað afbrigðilegt þrátt fyrir að, eins og ég nefndi, margt það sama hafi átt sér stað og eigi sér enn stað í Bretlandi og Hollandi.

Nr. 56 tengist því sem hefur svo sem verið til umræðu hér undanfarna daga í mörgum ræðum um það hversu illa hefur verið staðið að því að útskýra stöðu okkar í öðrum löndum. Þessi athugasemd mín, nr. 56, snýr ekki að erlendum ríkisstjórnum eða erlendum fjölmiðlamönnum eða stjórnmálamönnum öðrum heldur að þeim sem hafa verið tilbúnir að sýna það frumkvæði að koma til Íslands til að ræða við okkur og reyna að leysa úr vandanum. Dæmi um slíkan mann er Gerard van Fliet sem hingað hefur komið margoft sem talsmaður hollenskra sparifjáreigenda. Ég hitti þennan mann þegar hann kom hingað fyrst, hina fyrstu ferð, ásamt félögum sínum úr þessum hópi sem berst fyrir hagsmunum hollenskra sparifjáreigenda sem ekki fengu allt sitt bætt. Það kom á daginn að enginn innan bankanna eða frá stjórnvöldum hafði viljað hlusta á þetta fólk þannig að ég og fleiri fórum og hittum það og hlustuðum lengi vel á sögu þess. Reyndar tókum við tvo daga í það og komumst að því að áhyggjur þessara hollensku sparifjáreigenda voru um margt þær sömu og áhyggjur Íslendinga enda hefur þessi hópur, sem er töluvert áberandi í Hollandi og beitir sér mikið í hollenskum fjölmiðlum, beitt sér gegn því að Íslendingar samþykki þennan Icesave-samning.

Hvernig má það vera, spyrja menn ef til vill því að sá misskilningur hefur verið uppi hér að þetta fólk hafi verið að þrýsta á um að gengið yrði frá málinu með þessum hætti. Nei, ástæðan er sú að þetta fólk gerir sér grein fyrir því að stjórnvöld í heimalandi þess hafa komið illa fram, staðið illa að málum, svo að ekki sé minnst á stjórnvöld í Bretlandi. Þessum hollensku sparifjáreigendum er misboðið yfir því að samið hafi verið á þann hátt að ekkert tillit skuli til að mynda hafa verið tekið til hryðjuverkalaganna sem augljóslega sköðuðu eignir þessa fólks þannig að það fær minna greitt fyrir vikið, fyrir utan þá mismunun sem þetta fólk hefur verið beitt vegna þess að í Bretlandi fengu sparifjáreigendur í mörgum tilvikum bætur upp í topp en þessir Hollendingar fengu það ekki. Engu að síður eru samningar Íslendinga við bresk og hollensk stjórnvöld hinir sömu.

Í þessu tilviki, eins og svo mörgum öðrum, þ.e. í tilviki þessara hollensku sparifjáreigenda, var ekki hugað að sanngirni. Og það er kannski það sem hefur alltaf vantað í þetta mál, að huga annars vegar að sanngirni og hins vegar að því sem er rökrétt en þetta fer nú reyndar yfirleitt saman. En það hefur ekki aðeins bitnað á Íslendingum heldur þessum hollensku sparifjáreigendum sem hefðu viljað vera samherjar okkar Íslendingar í að berjast fyrir málstaðnum. Þessi maður, Gerard van Fliet, hefur reyndar komið hér til lands núna síðast til þess að benda sérstaklega á það hversu illa íslensk stjórnvöld hafa staðið að því að kynna málstaðinn í Hollandi. Þessi maður sagði: „Það eru allir til í að hlusta. Hollenskir þingmenn vilja fá að hitta kollega sína, ræða þetta mál, fá skýringar á því hvers vegna menn eru (Forseti hringir.) svona ósáttir á Íslandi.“

Ég verð að biðja frú forseta að setja mig aftur á mælendaskrá, því að ég á allmarga punkta eftir.