138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég var kominn að lið 57 og hann varðar tengsl þessa máls við Evrópusambandið. Ég tel að þeir sem barist hafa fyrir inngöngu Íslands í ESB, og ekki hvað síst samfylkingarmenn, nálgist þetta með mjög röngum hætti út frá eigin stefnu. Það virðist öllum vera ljóst að yfirlýsingar ríkja innan Evrópusambandsins, um að það muni þvælast mjög fyrir aðildarumsókn Íslendinga ef þeir gangi ekki frá Icesave-samningunum á þann hátt sem Bretar og Hollendingar vilja, og raunar líka orð hæstv. utanríkisráðherra þess efnis að ljúka þurfi Icesave-umræðunni til að menn geti aftur orðið fylgjandi Evrópusambandsumsókninni, staðfesti tengsl þessara mála. Svo hafa bæst við hreint magnaðar yfirlýsingar hæstv. fjármálaráðherra sem talaði um grímulausar hótanir Evrópusambandsins og hæstv. forsætisráðherra sem kannaðist við þessar hótanir en sagði þær tilheyra liðinni tíð.

Það hvernig Evrópusambandssinnar, einkum í Samfylkingunni, hafa talað í þessu máli — iðulega á þeim nótum að þessi ríki, sem stundum eru ekki kölluð Evrópusambandið heldur alþjóðasamfélagið, mundu refsa Íslendingum með mjög afgerandi hætti efnahagslega ef við svo mikið sem bæðum um að fá skorið úr þessum ágreiningi fyrir dómstólum — hefur ekki verið til þess fallið að auka vinsældir Evrópusambandsins. Ég tel að hugarfar Íslendinga sé það almennt að þeir vilji ekki láta kúga sig til að gera hlutina. Þegar menn upplifa að verið sé að þvinga þá til að láta undan kröfum Evrópusambandsins, í samræmi við lýsingar hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. utanríkisráðherra o.fl., þá er það ekki til þess fallið að afla málstað Samfylkingarinnar fylgis.

Þá kann einhver að hugsa sem svo: Þegar menn eru búnir að taka á sig þessar skuldbindingar verður hægt að halda fram þeim rökum að menn eigi ekki annan kost en ganga í Evrópusambandið. Þá er ég dálítið hræddur um að menn muni aftur reka sig á þann vegg að Íslendingar vilja ekki láta kúga sig og eru ekki heldur tilbúnir að láta svelta sig til að gera einhverja hluti. Hvar stöndum við þá? Þá verður Samfylkingin, ásamt hæstv. fjármálaráðherra og Vinstri grænum, búin að samþykkja þessar skuldbindingar, væntanlega í þeirri trú, alla vega hvað varðar Samfylkinguna, að það muni tryggja Evrópusambandsaðild, en afleiðingin kann svo að verða þveröfug. Þá er þetta farið fyrir lítið frá sjónarhóli Samfylkingarinnar.

Nr. 58 eru þær fullyrðingar að Íslendingum beri á einhvern hátt sem þjóð siðferðileg skylda til að taka á sig þessar skuldbindingar hvað sem líður lagalegri skyldu. Nú birtist það m.a.s. í frumvarpinu sjálfu að menn vefengja lagalegu skylduna, en þá eru sumir sem halda því fram að hvað sem því líði beri Íslendingum siðferðisleg skylda til að taka þetta á sig. Þetta felur í fyrsta lagi í sér mjög hæpna hópskilgreiningu á Íslendingum, og minnir reyndar á margt um hvers konar fordóma sem ég hefði talið að ættu ekki að eiga upp á pallborðið í nútímapólitískri umræðu, þ.e. að flokka fólk í einhverja hópa eftir uppruna sínum og telja það gott eða slæmt eða ábyrgt eða óábyrgt gagnvart einhverjum hlutum eftir því í hvaða hóp það fæddist.

Þessu hefur maður jafnvel heyrt haldið fram af háskólaprófessorum, til að mynda talaði háskólaprófessor í heimspekideild Háskólans á Akureyri á þessum nótum. Ég velti því þá fyrir mér hvort prófessorinn væri sama sinnis ef staðið yrði undir þessum greiðslum, m.a. með því að leggja niður heimspekideild Háskólans á Akureyri og viðkomandi missti þá vinnuna. Ég reyndar efast um að það sé það sem hann átti við því að yfirleitt er það þannig þegar menn eru að tala fjálglega um ábyrgð hópa að þeir ætlast til að hinir axli ábyrgðina en eru ekki tilbúnir til þess að sama marki sjálfir að gera það. Ef menn ætla að leggja þessa ábyrgð á Íslendinga sem þjóð og refsa þeim þannig mun það hafa verulegar afleiðingar, m.a. í því að atvinnuleysi eykst töluvert, og ég efast um að þeir sem tala á þessum nótum séu tilbúnir til að vera á meðal hinna atvinnulausu til að Íslendingar geti tekið á sig þessa hópábyrgð. Fyrir utan það sem ég nefndi áðan að það er ekki eins og Ísland sé eina landið í heiminum þar sem bankar hafa komið sér í vandræði.

Nr. 59 tengist reyndar líka siðferðislegum rökum en það er það að fólk í Bretlandi og Hollandi hafi í góðri trú lagt sparifé sitt inn á reikninga og tapað þeim og ekki sé hægt annað en bæta þessu fólki það tjón. Þetta er að sjálfsögðu rétt. Það er hræðilegt ef fólk sem í góðri trú leggur peninga sína inn til að ávaxta þá, jafnvel þó að það hafi tekið meiri áhættu en aðrir með því að leita í þessa hávaxtareikninga, tapar peningum sínum. Satt að segja þykir mér mjög leiðinlegt og eiginlega til skammar að það gerist hjá íslensku fyrirtæki þó að ég sé ekki með því að segja að íslenskur almenningur eigi að taka á því ábyrgð eins og ég lýsti í lið 58. En þetta heyrir maður stundum, því er haldið fram að þarna séu venjulegir sparifjáreigendur og það þurfi að hafa það í huga.

Þá gleymist að það er búið að borga innstæðueigendum út það sem þeir koma til með að fá. Það er algerlega óháð því hvernig þessir samningar, sem eru samningar milli Íslendinga og hollenska ríkisins og breska ríkisins, fara. Ríkisstjórnir þessara landa eru nú þegar búnar að borga innstæðueigendunum það sem gert er ráð fyrir að þeir fái svo að ekki er lengur verið að meta hvort borga eigi innstæðueigendum eða ekki. Það er verið að meta það hversu mikið eigi að borga hollenska og breska ríkinu og þessi ríki eru að fara fram á að fá bætt úr þrotabúi Landsbankans miklu meira en nemur þessari lágmarkstryggingu sem hér hefur margoft verið nefnd. Ekki nóg með það. Þetta eru sömu ríkin sem beittu okkur bolabrögðum með ótrúlega miklu tjóni fyrir okkur Íslendinga, þó sérstaklega breska ríkið með beitingu hryðjuverkalaganna og falli bankanna, eins og ég nefndi áður. Það er því ekki hægt að blanda þessu saman við stöðu sparifjáreigenda. Þetta snýst um samninga við ríkisstjórnir þessara landa sem bera þarna töluverða ábyrgð.

Liður 60 er það tjón sem nú þegar hefur orðið á þessu ári, ekki bara vegna vaxtanna heldur vegna gengisþróunar. Mér reiknast til, og ef ég man rétt hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal líka birt svipaða tölu að það sem af er þessu ári nemi þetta tjón vegna vaxtakostnaðar — og höfum í huga að við erum að borga vexti frá 1. janúar á þessu ári þrátt fyrir að greiðsluskyldan hafi ekki myndast fyrr en í október að mig minnir, hv. þm. Pétur H. Blöndal leiðréttir mig ef það er ekki rétt. En menn sömdu um að borga vexti af lánunum marga, marga mánuði þrátt fyrir að greiðsluskyldan hafi ekki þá þegar verið orðin til. En þessi upphæð, þessir vextir, sem að miklu leyti, ég ítreka það, eru tilkomnir á tímabili þar sem okkur bar ekki að borga vexti, jafnvel að þó menn viðurkenndu þessar skuldbindingar, og gengisfallið er orðin hærri upphæð en allur þorskútflutningur Íslendinga á heilu ári. Þá er ég ekki bara að tala um þorskútflutning fram að þessu heldur eru þetta gjaldeyristekjur af öllum þorskútflutningi á heilu ári. Þá er rétt að hafa í huga að það kemur ekkert fyrir þessa peninga en það sem við fáum fyrir þorskinn skilar sér inn í landið. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég á enn eftir nokkra liði og bið því um að verða aftur settur á mælendaskrá.