138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:05]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég hef hugsað mér að halda áfram að fara yfir ræðu hæstv. fjármálaráðherra.

Þau vöktu sérstaka athygli mína orð hæstv. formanns fjárlaganefndar, um að fyrirvararnir séu í rauninni betri en þeir sem gerðir voru í sumar. Það má kannski túlka þau á þann veg að eftir að fyrirvararnir voru settir hafi Bretum og Hollendingum fundist sem Íslendingar hafi ekki gætt hagsmuna sina nægilega vel og því ákveðið að koma þeim til hjálpar og betrumbæta þá. Að sjálfsögðu er það ekki þannig.

Hæstv. fjármálaráðherra rökstuddi þessa skoðun sína með þeim orðum að það væri svo gott að nú væru fyrirvararnir felldir inn í viðaukasamninginn og þannig frá þeim gengið. Það er einmitt það hættulega við þetta, virðulegi forseti, vegna þess að meðan fyrirvararnir stóðu sem lög frá hinu háa Alþingi giltu um þá íslensk lög og það voru íslenskir dómstólar, héraðsdómur og Hæstiréttur, sem áttu að fjalla um þá ef um þá yrði ágreiningur. Í því var falin mikil og góð vörn fyrir Ísland og fyrir íslenskan almenning, fyrir komandi kynslóðir, sem maður má reikna með að komi til með að hafa uppi einhverjar spurningar um það hvernig staðið var að málum varðandi þessa samninga.

Nú er það þannig, virðulegi forseti, að um leið og fyrirvararnir voru felldir inn í samningana gilda um þá bresk lög og breskir dómstólar munu fjalla um þá. Eins ótrúlegt og það sýnist þá sömdu Íslendingar sig algjörlega frá öllum rétti hvað þetta varðar. Þetta var í þessum viðaukasamningi, sem var eitt sinn gagn nr. 1 í leynimöppunni en okkur tókst að fá leyndinni aflétt. Þar kom fram að ef Íslendingar hefðu uppi ágreining um samningana átti að fara með það fyrir breskum dómstólum samkvæmt breskum lögum, það var tekið fram. Ef Bretar hefðu uppi ágreining eða athugasemdir mættu þeir í sjálfu sér hafa þann ágreining uppi fyrir hvaða dómstól sem er. Íslendingar voru með öðrum orðum skikkaðir til þess að leita til breskra dómstóla en Bretar mega — og það er enn þannig vegna þess að samningarnir eru enn í gildi — leita til þeirra dómstóla sem þeir telja að séu sér hagstæðastir. Þetta er í rauninni ótrúlegt.

Hæstv. fjármálaráðherra heldur síðan áfram í ræðu sinni og segir:

„Efnahagslegi fyrirvarinn eða fyrirvararnir eru þarna nákvæmlega eins og þeir voru frágengnir af hálfu Alþingis …“ — Það er nú ekki þannig. Svo heldur hann áfram: „hvað varðar viðmiðanir um hagvöxt og annað í þeim dúr …“ Og svo kemur: „að öðru leyti en því að að lágmarki skuli alltaf greiddir vextir.“

Það er í rauninni með endemum hvernig hæstv. fjármálaráðherra setur upp mál sitt, að halda því fram að fyrirvararnir séu nákvæmlega eins en með þessari litlu undantekningu.

Efnahagslegi fyrirvarinn gekk út á það vernda Íslendinga frá hinum háu vöxtum, að vernda komandi kynslóðir fyrir því að þurfa alltaf að greiða vexti. Efnahagslegi fyrirvarinn fólst í því, og það var skilningur margra þingmanna, að ef ekki yrði hagvöxtur hér eins og Seðlabankinn ætlaði og staðan yrði einfaldlega verri en bjartsýnustu menn þorðu að vona gætum við ekki boðið komandi kynslóðum upp á það að þurfa endalaust að borga Icesave-samningana og vexti þar ofan á. Það væri komið nóg í júnímánuði 2024. Það væri ekki hægt að skuldbinda komandi kynslóðir meira.

Þessu var breytt. Jafnvel þó að hæstv. fjármálaráðherra reyni að gera lítið úr þeirri breytingu skiptir hún gríðarlega miklu máli vegna þess að um leið varð skuldbindingin óviss. Við vitum ekki núna hversu há fjárhæðin verður sem við komum á endanum til með að borga, það er einfaldlega þannig. Menn eru í mikilli óvissu. Við vitum það bara að við þurfum að borga 100 milljónir á dag í vexti, hvorki meira né minna en 100 milljónir kr. íslenskar á dag í vexti næstu ár, næstu sjö ár a.m.k., út af Icesave-samningunum.

Hæstv. fjármálaráðherra hélt því fram að rök viðsemjenda okkar, Breta og Hollendinga væntanlega, væru að engin fordæmi séu önnur í löngum samningum af þessu tagi milli þjóðríkja en a.m.k. sé gert ráð fyrir greiðslu vaxta eftir að afborgunartími hefst. Það var einmitt það sem efnahagslegi fyrirvarinn gekk út á. Við ætluðum okkur ekki að vera í sömu aðstöðu og margar Afríkuþjóðir. Margar Afríkuþjóðir eru í þeirri stöðu að þær sjá ekki fram úr vanda sínum vegna þess að þær eru einfaldlega alltaf að borga afborganir af lánum sem þær tóku með háum vöxtum og um leið eru þau ríki dæmd til fátæktar.

Það skal benda á það, og allt í lagi að halda því til haga, að Bono, söngvari hljómsveitarinnar U2, hefur barist fyrir því að vestræn ríki felli niður stóran hluta af skuldum fátækra Afríkulanda. Fyrirvarinn gekk út á það að við ætluðum sjálf að vernda okkur svo að við þyrftum ekki að leita til poppsöngvara í framtíðinni til að berjast fyrir okkur að fella niður drápsklyfjar skulda sem við yrðum að taka á okkur.

Hæstv. fjármálaráðherra hélt áfram og ég held að ég þurfi að fjalla aðeins ítarlegar um fyrirvarann kenndan við Ragnar H. Hall vegna þess að hann vill meina að nú gildi hann sjálfkrafa. Ég er einfaldlega ekki sammála þeirri niðurstöðu vegna þess að ég tel að EFTA-dómstóllinn hafi ekki lögsögu til að úrskurða í málinu. Nú er það þannig að dómsvald hefur verið fært af íslenskum dómstólum yfir til EFTA-dómstólsins. Um það voru lögspekingar sem kvaddir voru á fund í fjárlaganefnd sammála. Ég tel að þarna sé um að ræða eitthvert stærsta veðmál sem einstakt ríki hefur tekið þátt í en Ragnar H. Hall benti á að Bretar og Hollendingar hefðu sett ákvæði inn í lánasamningana sem gerðu það að verkum að þeir fengju greitt um leið og íslenski innstæðutryggingarsjóðurinn þegar þrotabú Landsbankans færi að greiða út úr þrotabúinu.

Menn spurðu: Af hverju skyldu Bretar og Hollendingar hafa sett þetta ákvæði inn í samningana? Jú, vegna þess að þeir ætluðu sér að tryggja sér betri stöðu en þeir áttu nokkurn tíma rétt á samkvæmt íslenskum lögum. Ég hef treyst því að íslenskir dómstólar ættu að fjalla um málið og ég hef treyst því, og mun treysta því, að þeir komist að jákvæðri niðurstöðu Íslendingum í hag. En hvað gerist þá? Jú, við þurfum að treysta á EFTA-dómstólinn. Menn fullyrða að jafnvel þó að þeir aðilar telji að þeir eigi ekki lögsögu í málinu muni það jafnvel gagnast. Það er líka stórt veðmál. Við erum alltaf að ræða hagsmuni upp á tugi ef ekki hundruð milljarða. Þetta er stór hluti af þeim fyrirvörum og því umræðuefni sem stjórnarmeirihlutinn ætlar ekki að ræða hér á Alþingi. Hér þegja menn þunnu hljóði.

Ég mun halda áfram, í næstu ræðu, að fjalla um þá (Forseti hringir.) fyrirvara sem hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að séu til bóta.