138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég verð því miður að halda áfram að geta mér til um afstöðu einstakra hv. stjórnarþingmanna og hæstv. ráðherra og nú er ég kominn að hæstv. ráðherra Árna Páli Árnasyni. Hann hefur farið í fimm andsvör í þessu síðara máli sem við ræðum núna og það var ekkert efnislegt í þeim andsvörum að lesa þannig að ég átta mig ekki á afstöðu hans eða skilningi á málinu. Hann er ekki að taka afstöðu til þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram um þetta mál. Hann ræddi hins vegar málið í 1. umr. um fyrra málið, um samninginn sjálfan, 2. júlí 2009. Þá var málið nýkomið inn í þingið, þessi hræðilegi samningur, og það er athyglisvert að lesa ræðu hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, Árna Páls Árnasonar, sérstaklega í ljósi þess hvað gerðist seinna. Hann hefur ekki tjáð sig um það síðan þannig að við vitum í raun ekkert um afstöðu hans eftir það. Hann segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er líka ljóst að af hálfu Fjármálaeftirlitsins var unnið að því á árinu 2008 að reyna að stemma þessa á að ósi, [þ.e. aukningu á innlánunum] koma þessari starfsemi fyrir í dótturfélögum til að draga úr áhættu íslensks almennings vegna þessara skuldbindinga, vegna þess að það var á almanna vitorði að Tryggingarsjóður innstæðueigenda starfaði ekki í lagalegu tómarúmi heldur væri hluti af hinu opinbera kerfi og ætti að tryggja innstæður. Þess vegna var lögð áhersla á að koma þessum skuldbindingum fyrir í dótturfélögum. Og auðvitað verður aldrei undan því vikist að leggja höfuðábyrgð af þessu máli á hendur þeim forsvarsmönnum Landsbankans sem kusu að leggja í þessa sjóferð vitandi það — ágæt líking hæstv. viðskiptaráðherra áðan af hripleku skipi — að efnahagur bankanna var í mjög löku standi, vitandi að af hálfu íslenskra stjórnvalda, af hálfu Fjármálaeftirlitsins var lögð gríðarleg áhersla á að þessum eignum yrði komið fyrir í dótturfélögum og það var verið að vinna að því að koma þeim almennt í dótturfélög á þessum sama tíma, á fyrri hluta ársins 2008, að þá skulu menn samt sem áður ákveða að þenja frekar út skuldbindingarnar með því að stofna til nýrra skuldbindinga í Hollandi. Það er auðvitað með ólíkindum. Það hlýtur að þurfa að ítreka enn og aftur að ábyrgð forustumanna og forsvarsmanna Landsbankans er gríðarleg í þessu máli.“

Herra forseti. Þetta er dálítið athyglisvert. Það var hvorki meira né minna en þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, samflokksmaður hv. þingmanns, sem var yfir þessum málum, og hæstv. ráðherra, Árni Páll Árnason, er í rauninni að gagnrýna hann með þessum orðum. Það er ekki nóg með það heldur var Jón Sigurðsson, sem var formaður Fjármálaeftirlitsins, og jafnframt varaformaður Seðlabankans, tengiliður á milli þessara tveggja stofnana sem áttu að sjá um eftirlitið. Hann skrifar grein í auglýsingablað Landsbankans í maí 2008. Í maí 2008 skrifar hann að staða íslensku bankanna sé traust. Hann vissi, herra forseti, að staðan var ekki traust og sá maður var eitt sinn ráðherra Alþýðuflokksins og mjög hátt skrifaður hjá Samfylkingunni. Svo þykist Samfylkingin, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, ekkert hafa komið nálægt þessu máli. Þeir eru alsaklausir og kenna Sjálfstæðisflokknum um allt. Hann er búinn að vera 18 ár í stjórn og þetta er allt honum að kenna. Þeir áttu þó að hafa eftirlit með þessu. Yfirmaður Fjármálaeftirlitsins, formaður stjórnarinnar, Jón Sigurðsson, fékk formennskuna út af því að hann var í Samfylkingunni og hann átti að hafa eftirlit með þessu og hann gerir gott betur, hann auglýsir í auglýsingablaði Landsbankans í Hollandi. Hann stuðlaði að því að áhuginn á þessum reikningum varð enn meiri. Svo stendur hér að þetta sé bara bönkunum að kenna.

Síðar í þessari ræðu hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, sem ekki hefur tjáð sig síðan um málið, koma merkilegar hugleiðingar, með leyfi hæstv. forseta:

„Virðulegi forseti. Í þessu máli hafa verið settar fram margar vangaveltur um leiðir til að komast hjá því að borga. Fyrst áttum við ekki að borga bara af því að við áttum ekki að borga. Svo var því haldið fram hér að við ættum ekki að borga vegna þess að fyrir því væru engin rök, engin lögfræðileg rök. Lögfræðilegu rökin leiða auðvitað af skuldbindingu okkar að þjóðarétti um að innleiða innstæðutryggingarnar“ — og þá grípur einhver fram í og segir: Nei. — „Jú og því til viðbótar, færi svo að menn gætu fundið þeirri útúrsnúningalögfræði stað sem sett hefur verið fram af nokkrum íslenskum lögfræðingum til að koma okkur undan þeim skuldbindingum þá er afar hæpið annað en að ríkið yrði í öllu falli dæmt skaðabótaskylt“ — og enn er gripið fram í — „að þjóðarétti fyrir að hafa ekki innleitt tilskipunina með fullnægjandi réttum hætti. Það er auðvitað þannig að óháð öllum lagaþrætum um þetta mál þá eru þær ekki einhlítar á einn eða neinn veg eins og gerst kemur í ljós í Morgunblaðinu í dag þar sem virtur erlendur Evrópuréttarlögfræðingur tjáir sig í þveröfuga átt. Það er alls ekki þannig að það séu nein slík einhlít lagarök í málinu að það sé yfir höfuð verjandi að leggja það fyrir dóm eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson rakti svo ágætlega í ræðu sinni hér í desember í fyrra.“

Herra forseti. Þetta er dálítið athyglisvert. Ég ætla að fá að vitna í það að 13. nóvember, laugardag, birtist í Morgunblaðinu úttekt á ummælum hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, tjáði sig í fyrsta sinn opinberlega um Icesave-samninginn síðan hún hætti í stjórnmálum í viðtali sem tekið var fyrir Spjallið, þátt Sölva Tryggvasonar á Skjá einum. Sá hluti viðtalsins hefur ekki verið birtur áður. Þar kemur fram að Ingibjörg er ósátt við að Ísland hafi gengið til samninga eins og sakamaður: „Núna þegar við erum að reyna að semja okkur í gegnum Icesave þá finnst mér svolítið eins og við komum fram eins og hinn seki, göngum til samninga eins og sakamaðurinn, en hins vegar séu bresk stjórnvöld laus allra mála, þau eru það auðvitað ekki.““

Herra forseti. Þarna segir sem sagt fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, að Íslendingar hafi samið eins og sakamenn og það er heldur ekki skrýtið þegar maður les ummæli hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, í þessari ræðu hans 2. júlí, í 1. umr. um málið, og hann hefur ekki sagt orð síðan. Hann segir að það sé skylda Íslendinga að borga þetta. Samt las ég áðan úr reglugerðinni sem menn eru að tala um. Ég las orð sem allir eiga að skilja á þann veg að það er ekki skattgreiðenda að borga þetta heldur innlánsstofnananna sjálfra. Það er skylda ríkjanna að koma innlánstryggingarkerfi á og þegar það er búið, og því var ekki mótmælt, þá er kerfið komið á og það á að tryggja bankana en það ræður ekki við það þegar kerfishrun verður eins og fjármálaráðherra Hollands nefndi í viðtali í mars 2009 áður en hann samdi við Íslendinga um að þeir skyldu borga. Þetta er allt saman með ólíkindum.

Herra forseti. Hæstv. viðskiptaráðherra á þeim tíma, Björgvin G. Sigurðsson, sagði á forsíðu Morgunblaðsins 13. október — og ég man það alltaf — að Íslendingum bæri þjóðréttarleg skylda til að borga Icesave. Þetta segir viðskiptaráðherra Íslands 13. október, viku eftir hrun. Þá er hann búinn að gefast upp. Þá er hann búinn að viðurkenna það að við eigum að borga. Ég var svo hneykslaður á þeim tíma, herra forseti, að ég ætlaði að flytja vantraust á ráðherrann en það hlaut ekki góðar undirtektir í mínum flokki. Mér fannst með ólíkindum að hann skyldi lýsa þessu yfir. Hann þurfti þess ekki, það var engin ástæða fyrir hann. Og nú segir hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, að Íslendingar hafi samið eins og sakamenn og það er von að samningurinn sé eins og hann er. Eftir að allur þrýstingurinn er farinn úr málinu, herra forseti, verðum við að ganga aftur til samninga við Breta og Hollendinga og semja eins og jafnréttháir menn, eins og frjálsir menn en ekki eins og einhverjir menn sem eru beittir ofbeldi í skógi.