Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 08. desember 2009, kl. 12:31:21 (0)


138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um ræðu hæstv. forsætisráðherra hér áðan. Þessa ræðu höfum við heyrt áður, hún hefði allt eins getað verið flutt fyrir hálfu ári síðan og líklega var þetta nokkurn veginn sama ræðan. En mér finnst algjörlega óviðunandi að í þessu líklega mesta hagsmunamáli sem Alþingi hefur tekið fyrir skuli hæstv. forsætisráðherra Íslands koma hingað og lesa vélrænt upp ræðu sem augljóslega einhver annar hefur skrifað, algjörlega án sannfæringar, algjörlega án tilfinningar og algjörlega án skilnings á málinu. (Gripið fram í.) Því að hvað eftir annað höfum við séð að núverandi ríkisstjórn, sem er að þvinga fram niðurstöðu, hefur ekki skilning á því sem hún er að framkvæma og getur ekki haldið uppi vörnum. Það sem lesið var upp eru nákvæmlega sömu fullyrðingar og komu fram fyrir hálfu ári og hafa allar verið hraktar. Það mundi ríkisstjórnin hugsanlega vita ef hún hefði haft fyrir því að mæta hér og hlusta á umræður sem hafa staðið mjög lengi. Hvers vegna ætli þær hafi staðið svona lengi? Vegna þess að þingmenn minni hlutans á þingi hafa viljað gera hvað þeir gætu til að vera fullvissir í framtíðinni um að þeir hefðu reynt, þeir hefðu reynt til þrautar að útskýra þetta mál vegna þess að það er þannig vaxið að þó þetta sé hræðilegt mál og muni líklega alltaf koma illa við okkur hefur það haft ákaflega mikil áhrif á líðan margra, ekki bara vegna þess hvernig það er vaxið, það er erfitt, menn eru alltaf tilbúnir að takast á við erfiðleika. En menn eru ekki tilbúnir til að gera mistök sem augljóslega væri hægt að koma í veg fyrir, (Gripið fram í.) því það væri svo augljóslega hægt að halda öðruvísi á í þessu máli. Mistökin eru svo fyrirliggjandi, það er svo borðleggjandi hvernig er verið að klúðra málunum að það verður aldrei hægt í framtíðinni að halda því fram að menn hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera, þeir sem greiða atkvæði með þessu frumvarpi.

Það er búið að útskýra svo fjölmarga punkta þessa máls. Búið er að útskýra það að allt sem fært var fram sem rök í þessu máli þegar samningarnir voru kynntir síðastliðið sumar hefur reynst rangt. Það hefur verið útskýrt og raunar er búið að útlista það að ekki liggur fyrir lagaleg skylda á Íslendingum að taka þessar ábyrgðir á sig. Það kemur meira að segja fram í frumvarpinu. Það kemur fram í frumvarpinu að menn telji þessa lagalegu skyldu ekki til staðar en engu að síður ætla menn að láta þingið fallast á þessar skuldbindingar. Það eru engar smáræðisskuldbindingar, því að reynt hefur verið að útskýra hvaða áhrif 100 millj. kr. eða rúmlega það á hverjum einasta degi í mörg, mörg, mörg ár muni hafa fyrir íslenskt samfélag. Hvaða áhrif ætli það hafi að þurfa að skera niður um meira en 100 milljónir á hverjum einasta degi? Það er það sem þarf að gera miðað við það sem ella væri og líklega miklu meira en 100 milljónir vegna þess að um er að ræða skuldbindingar í erlendri mynt sem fara út úr hagkerfinu og það má reikna með tvöföldun eða þreföldun miðað við veltu.

Reynt hefur verið að útskýra það allt að fyrir þessar upphæðir mætti halda 15.400 Íslendingum í vinnu á meðallaunum og 30.000 ef við reiknuðum þar margföldunaráhrif.

Það er búið að útskýra að tekjuskattur 79.000 Íslendinga muni fara í það að standa undir bara vaxtagreiðslunum vegna þessara samninga.

Það hefur verið reynt að útskýra hversu órökrétt það er að fullyrða að erlend ríki, ríki sem eiga gífurlega hagsmuni af því að Ísland rétti úr kútnum efnahagslega, muni beita okkur nánast einhvers konar hernaði, efnahagslegum hernaði og leggja hér allt í rúst og skaða þar með eigin hagsmuni enn meira en okkar eigin.

Það er búið að útskýra hversu órökrétt það er að ríkisvaldið skuli í þessu máli ekki leita álits hlutlausra aðila, heldur fá til þess einhverja sem þeir vita hvernig muni skila niðurstöðu, einhverja tengda sér. Nákvæmlega á sama hátt og bankarnir gerðu þegar þeir voru að reyna að verja óverjanlega stöðu rétt fyrir hrun þeirra.

Það er búið að reyna að útskýra óbeinu áhrifin, áhrifin á gengið, sem meira að segja fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins viðurkennir að með þessum samningum verði veikt árum saman langt fram í tímann, svo langt að menn í rauninni vita ekki hvenær gengið getur hugsanlega styrkst aftur. Og hverjar eru afleiðingarnar af því? Afleiðingarnar eru þær að íslensk fyrirtæki sem langflest eru skuldsett í erlendri mynt verða áfram órekstrarhæf. Afleiðingarnar eru líka þær að íslensk heimili sem mörg hver eru skuldsett í erlendri mynt eða með verðtryggðum lánum sitja uppi með skuldirnar sem bara munu hækka og verða óbærilegar.

Það er búið að útskýra vaxtaáhættuna og það hvernig menn hafa ekki aðeins vanrækt það að verja sig fyrir hugsanlegri áhættu í þeim efnum heldur í rauninni tryggt að sama hvernig áhrifin verða á gengisáhættu komi það okkur í koll.

Það er búið að útskýra að við fáum ekkert, ekkert fyrir þann skaða sem við urðum fyrir vegna hryðjuverkalaganna og að við greiðum svo miklu meira en þessa margumræddu lágmarkstryggingu vegna þess að einungis helmingur af þrotabúi Landsbankans fer í að standa undir því, hinn helmingurinn fer í að standa undir því sem Bretar og Hollendingar ákváðu einhliða að bæta við þessa umdeildu lágmarkstryggingu.

Það hefur verið reynt að útskýra fyrir ríkisstjórninni að ekkert ríki í Evrópu hefur verið tilbúið að lýsa því yfir að ríkistrygging væri á innstæðutryggingarsjóðum sínum. Það hefur verið falast eftir því til að mynda við þýska ríkið, það hafnaði því að lýsa slíku yfir. Þvert á móti, eins og reynt hefur verið að útskýra fyrir ríkisstjórninni, hafa meira að segja fjármálaráðherrar þeirra landa sem við eigum í deilu við í þessu máli, Bretlands og Hollands, lýst því yfir að slík trygging sé ekki til staðar. Hefur þessu verið beitt í viðræðum við þessar þjóðir? Það hefur eitthvað lítið farið fyrir því.

Það hefur verið reynt að útskýra að þetta hafi ekkert með neyðarlögin að gera. Það eru þegar í gangi málaferli vegna neyðarlaganna og þetta veikir heldur stöðu okkar hvað þau varðar en hitt og eykur verulega kostnaðinn, falli neyðarlögin.

Það hefur verið sýnt fram á hversu erfitt er, og verður líklega ómögulegt, að verða sér úti um gjaldeyri til að standa undir þessum greiðslum. En þá koma fram áætlanir frá í raun ríkinu sjálfu, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur útskýrt hvernig eru unnar. Þær eru unnar þannig að fyrst er metið hversu mikið þarf til að standa undir Icesave-skuldunum, og svo það sem menn gera ráð fyrir að verði til. Til þess að það yrði þyrfti að verða margfaldur metafgangur af útflutningi ár eftir ár eftir ár. En fram hjá þessu hefur verið litið.

Það hefur verið reynt að útskýra gallana við það að þiggja þessi IMF-lán sem eiga að vera meginástæða þess að við eigum að samþykkja þessa samninga og verja þeim í vonlausa baráttu að halda uppi genginu á óeðlilegan hátt.

Umfram allt höfum við nú í þessari umræðu reynt að útskýra hversu óeðlilegt það er að þingið skuli yfir höfuð vera að ræða þetta mál sem það er búið að afgreiða, hversu óeðlileg þessi niðurlæging elsta löggjafarþings heims er, þegar ríkisstjórn Íslands, framkvæmdarvaldið, kemur hér inn og krefst þess að þingið samþykki óbreytt frumvarp til þess að uppfylla ýtrustu kröfur breskra og hollenskra stjórnvalda.

Hugmyndir voru uppi um það í fyrrahaust að gerðar yrðu breytingar á íslensku samfélagi og íslenskum stjórnmálum til hins betra. Segja má að strax eftir hrunið og eftir að þjóðin náði saman um það að hér þyrftu hlutirnir að breytast hafi verið lagt fyrir okkur próf, stórt próf til þess að sanna hvort þjóðinni og okkur stjórnmálamönnum væri alvara með breytt hugarfar. Það er þetta Icesave-mál en á því prófi hafa a.m.k. stjórnarflokkarnir fullkomlega fallið. Hér birtist algjört flokksræði, grófara en sést hefur um langt skeið. Þingmenn eru beittir grímulausum hótunum, rétt eins og ríkisstjórninni var grímulaust hótað af Evrópusambandinu að mati hæstv. fjármálaráðherra. Þingmönnum er gert ljóst að þeir verði að greiða atkvæði í málinu með tilteknum hætti, ella gerist eitthvað, alls konar hræðilegir hlutir og sá hræðilegasti líklega sá að þessi stjórn falli. Menn hafa gengið svo langt í ríkisstjórninni að hóta því að fella eigin stjórn geri þingmenn hennar ekki eins og til er ætlast. Í stað þess að menn hugsi til framtíðar, hugsi langt fram í tímann, eins og ég taldi að menn hlytu að reyna að gera eftir reynsluna frá því í fyrra, nei, þá eru gerðir samningar og helstu kostir þeirra taldir vera þeir að ekki þurfi að byrja að borga af þeim fyrr en eftir sjö ár. Þrátt fyrir það að þeir hafi að sjálfsögðu strax áhrif eftir að þeir eru samþykktir og vextirnir séu borgaðir ekki bara frá þeim tíma heldur frá síðustu áramótum.

Þegar menn töluðu um að hér ætti að styrkja þingræðið og tryggja þessi grundvallaratriði lýðræðiskerfis okkar eins og þrískiptingu ríkisvalds — hversu mikil alvara var á bak við það? Hvernig hefur verið farið með þingið í þessu máli? Þingið samþykkti lög. Ríkisstjórnin átti að taka að sér að gera Bretum og Hollendingum ljóst að það væri niðurstaðan. Í staðinn kemur hún aftur til þingsins og gerir þinginu ljóst að því beri að hlíta niðurstöðu erlendra stjórnvalda. Og hvernig er með dómsvaldið? Það er flutt út líka, bæði löggjafarvaldið og dómsvaldið flutt út, en framkvæmdarvaldið það er eftir hér, vegna þess að ráðherrarnir í núverandi ríkisstjórn vilja umfram allt halda völdum og hafa meira að segja verið ófeimnir við að segja það. Það er svo mikilvægt að þeirra mati að þeir haldi völdum að það má gefa allt annað eftir.

Svo á í þessu máli að reyna að kaupa einhvers konar ímynd. Það á að nálgast hið óskilgreinda alþjóðasamfélag með því að leggjast flatur, sýna undirgefni og með því megi hugsanlega kaupa sér einhvers konar velvild. Þetta er að sjálfsögðu kolröng nálgun og er áhyggjuefni þegar ríkisstjórnin ætlar nú að beita sér fyrir aukinni þátttöku í alþjóðasamtökum, það eigi að byggjast á — ekki lagalegum rétti, ekki á stöðu Íslands sem sjálfstæðs ríkis, heldur á undirgefni við önnur lönd.

Meðan ábendingar koma hvaðanæva að frá erlendum stjórnmálamönnum, blaðamönnum og fræðimönnum um hvers lags mistök sé verið að gera hér, rétt eins og menn reyndu að benda okkur á mistökin sem gerð voru á árinu 2007 og árinu þar áður, reynir ríkisstjórnin að gera sem minnst úr hverjum þeim sem varar við hættunum og fær þess í stað einhverja sér tengda til að koma með önnur álit. Þetta er kunnugleg aðferðafræði og ég held að við vitum til hvers hún leiðir.

Kaldhæðnin, stóra kaldhæðnin í þessu máli er sú að það sem ríkisstjórnin er núna að gera með þessu frumvarpi — að reyna að verða sér út um pening vegna þess að skuldirnar eru orðnar svo miklar, að hún verði bara einhvern veginn að afla sér fjár til þess að fresta vandanum, borga Bretum og Hollendingum og vona það besta, vona að eignir Landsbankans hækki í verði og vona að efnahagsaðstæður þróist þannig að við munum á einhvern óútskýrðan hátt geta staðið undir þessu — er nákvæmlega það sama og þeir sem stýrðu Landsbankanum hugsuðu þegar þeir stofnuðu Icesave-reikningana. Bankinn var svo skuldsettur að hann þurfti bara einhvern veginn að verða sér úti um pening. Og vonuðu og vonuðu að eignir bankans mundu hækka í verði og efnahagsástandið yrði í lagi eftir einhvern tíma. Það gerðist ekki og í staðinn varð áfallið svo miklu, miklu verra og núna er verið að færa þetta yfir á íslensku þjóðina.

Þetta þoldi að sjálfsögðu ekki dagsljósið fyrir kosningar. Við höfum séð að ríkisstjórnin gerði sér þó a.m.k. grein fyrir því að kjósendur mættu ekki vita hvað hún væri að aðhafast í þessu máli því þá fengi hún ekki brautargengi í kosningum. Það var því falið eins og svo margt annað í þessu máli og gagnsæið sem svo mikið var talað um fór út í veður og vind.

En líklega er aðalmálið í Icesave-málinu það að ríkisstjórnin hefur brugðist í þeirri grunnskyldu sinni að veita þjóðinni framtíðarsýn á þessum erfiðu tímum en í staðinn hefur framtíðarsýnin verið tekin af henni með þessum óbærilega skuldaklafa sem enginn hefur útskýrt hvernig við eigum að vinna okkur út úr. Hún hefur líka brugðist í þeirri grunnskyldu hverra stjórnvalda, hvar sem er í heiminum, að verja þjóð sína. Það er ófyrirgefanlegt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)