Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 08. desember 2009, kl. 14:08:30 (0)


138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:08]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Engum hugnast að taka á sig byrðar sem þykja ósanngjarnar og óréttlátar. Ríkisábyrgðin sem við greiðum nú atkvæði um er þess eðlis en hún er líka afleiðing stjórnarstefnu allt frá 1991, af pólitískum ákvörðunum um einkavæðingu og hömlulaust viðskiptafrelsi þar sem valsað var í ævintýramennsku með fjármuni almennings hér á landi og erlendis. Hér var vanmegnugt eftirlitskerfi sem fékk það veganesti í vöggugjöf að stuðla að og standa með útrásarfárinu. Ábyrgð þeirra sem þar réðu för er þung en íslensku samfélagi óumflýjanleg. (Gripið fram í.)

Í umræðunni hafa fallið mörg sver orð og þeim ósjaldan brigslað um svik sem tóku að sér að rétta þjóðarskútuna við. Slíkur málflutningur er til hnjóðs þeim er hann stunda eða ljá honum stuðning.

Ég mun ekki víkja mér undan ábyrgð og hopa í skjól stundarvinsælda líkt og þeir sem mesta ábyrgð bera. Það mun reynast þeim skammgóður vermir, spái ég. Við Íslendingar getum staðið keik, tekist á við erfiðleikana og sigrast á þeim með bjartsýni og kjark að leiðarljósi. Ég segi já. (Gripið fram í.)