Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 08. desember 2009, kl. 14:18:53 (0)


138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:18]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt frá upphafi þessa máls lagt á það áherslu að það væri rétt að reyna að ná pólitískri lausn í því. Pólitísk lausn er lausn sem tekur tillit til þeirra aðstæðna sem eru á Íslandi og kallar það fram að það séu ekki bara við Íslendingar sem berum ábyrgð í þessu máli. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er þannig úr garði gert að það má jafna því til þess að við höfum fengið mál okkar afgreitt í dómstól og tapað málinu. Þess vegna er ekki hægt að sætta sig við þessa niðurstöðu.

Einnig, frú forseti, vil ég benda á að í 1. gr. frumvarpsins er sagt að við eigum að bera ábyrgð á þessari upphæð. Í 2. gr., sem við munum ræða hér á eftir, er sérstaklega tekið fram að ekkert í þessum lögum feli í sér viðurkenningu á því að við berum þessa ábyrgð. Þá er ekkert annað eftir, frú forseti, en að viðurkenna að við höfum verið beitt þvingunum, harðræði af öðrum þjóðum og við ætlum okkur þá að segja já við slíkum þvingunum og gefa þar eftir og það er ekki hægt fyrir okkur að nálgast málið þannig, frú forseti. Ég segi nei.