Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 08. desember 2009, kl. 14:27:07 (0)


138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í Morgunblaðinu 13. nóvember er vitnað í viðtal á Skjá 1 við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þar kemur fram að Ingibjörg er ósátt við að Íslendingar hafi gengið til samninganna eins og sakamaður.“ — Hún segir áfram: „Núna þegar við erum að reyna að semja okkur í gegnum Icesave, þá finnst mér svolítið eins og við komum fram eins og hinn seki … göngum til samninganna eins og sakamaðurinn, en hins vegar séu bresk stjórnvöld laus allra mála, …““

Svo segir þar áfram:

„Ingibjörg Sólrún segir að sér finnist að íslenska samninganefndin hafi ekki lagt nógu mikla áherslu á ábyrgð Breta og ábyrgð Evrópusambandsins. Við séum að vinna samkvæmt „direktívi“ frá Evrópusambandinu sem sé meingallað, sérstaklega hvað viðvíkur alþjóðlegum bönkum.“

Ég tek undir með fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar og segi nei.