Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 08. desember 2009, kl. 14:33:03 (0)


138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:33]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf):

Frú forseti. Nú ljúkum við 2. umr. þessa máls sem snýst um að gera breytingar á lögum sem Alþingi hefur nú þegar samþykkt í ljósi þess að Icesave-málið hverfur ekki nema Alþingi ljúki því. Mér hefur fundist 2. umr. um margt undarleg. Ég settist niður í upphafi og vildi hlusta á málflutning stjórnarandstöðunnar. En það var alveg ljóst frá byrjun að hann var málþóf og þar kom ekkert nýtt þar fram. Málið snýst þegar upp er staðið um það hvaða þingmenn þurfa og þora að taka á þeim pólitíska veruleika og þeirri ömurlegu milliríkjadeilu sem Icesave er.

Forseti. Í 1. umr. spurði ég spurninga á borð við þá hvort stjórnarandstaðan telji að Íslendingar sitji einir við samningaborðið og hvort börnin okkar eigi að borga fyrir það að Ísland fari í ruslflokk í lánshæfismati. Þeim spurningum hefur ekki verið svarað, frú forseti. Þess vegna segi ég: Ég er tilbúin (Forseti hringir.) til að axla ábyrgð á þessu máli, frú forseti, fyrst aðrir hafa ekki kjark til þess og ég segi já.