Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 08. desember 2009, kl. 14:34:50 (0)


138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:34]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegur forseti. Þetta mál snýst um að Íslendingar undirgangist ábyrgð upp á 750 milljarða kr., sem nemur hálfri landsframleiðslu. Það er kaldhæðni örlaganna að fyrsti gjalddaginn á þessu blessaða láni er árið 2016, sama ár og gjalddaginn á barnaláninu sem Alþýðubandalagið tók þegar það réði fjármálaráðuneytinu, og ber tæplega 15% vexti.

Hvernig greiða menn atkvæði hér inni? Það er ljóst að flestir stjórnarliðar virðast gera það á tveim forsendum, annars vegar af hollustu við flokkinn og hins vegar af hatri á Sjálfstæðisflokknum, eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason sýndi hér áðan. Forsendurnar sem ykkur hafa verið gefnar eru hálfsannleikur (Forseti hringir.) og lygi. Ábyrgð ykkar er mikil og framtíðin mun dæma ykkur. Ég segi nei.