Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 08. desember 2009, kl. 14:43:17 (0)


138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:43]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Sumir segja að við séum sigruð þjóð og að við eigum að horfast í augu við veruleikann, m.a. í þeim afarkostum sem Icesave er, að við komumst ekki lengra með þá áhöfn sem er við stjórnvölinn, sem við erum öll, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, hvort sem við tölum fyrir eða erum á móti, við komumst ekki lengra með alþjóðasamfélagið í fangið, lánardrottnana og handlangara þeirra í Evrópusambandi og Alþjóðagjaldeyrissjóði. Þetta er skiljanlegt sjónarmið og kann að vera raunsætt. Hvað okkur sjálf snertir ber okkur við þær aðstæður sem við búum við að greina á milli þeirra mála sem við eigum öll að standa saman um og hinna sem eðlilegur málefnalegur ágreiningur ríkir um eðli máls samkvæmt í lýðræðisþjóðfélagi. Okkur hefur ekki tekist að greina þarna á milli. Í því er ógæfa okkar fólgin en jafnframt sóknarmöguleikar ef við lærum af reynslunni. Ég hef alla tíð (Forseti hringir.) verið ósáttur við að ríkisstjórnin tengdi líf sitt við tiltekna niðurstöðu í Icesave-samningnum. Enn ósáttari hefði ég verið við vinnubrögðin sem mér finnst of lík aðkomu fyrri ríkisstjórna að þessum málum til að ég geti sætt mig við þau. (Forseti hringir.) Með atkvæði mínu gegn Icesave-samningnum mótmæli ég niðurstöðunni eins og hún liggur fyrir, svo og því hvernig hún er fengin. Ég segi nei. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)