Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 08. desember 2009, kl. 14:52:56 (0)


138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:52]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Í þessari grein er haldið til haga réttarlegri óvissu í þessu máli og tryggt að við getum áfram borið fyrir okkur þann ágreining sem við höfum haft uppi við önnur lönd um hvort okkur beri að inna þessa greiðslu af hendi.

Jafnframt er ljóst að í sameiginlegri yfirlýsingu fjármálaráðherra ríkjanna þriggja er að finna beina viðurkenningu viðsemjenda okkar á tilvist þessa ágreinings og það er í fyrsta skipti sem sú viðurkenning liggur fyrir.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem afneita allri ábyrgð sinni á þessu máli geta auðvitað talað sig hása hér með digurbarkalegum yfirlýsingum fullum af innstæðulausri þjóðrembu. Hitt er hins vegar alveg ljóst að forustumenn þess ágæta flokks voru tilbúnir til að semja um úrlausn þessa máls á mun verri kjörum en hér er lausnin og fjármálaráðherra þess flokks (Gripið fram í: Rangt.) var tilbúinn að leggja þennan réttarágreining fyrirvaralaust í gerðardóm. Ég segi já.