Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 08. desember 2009, kl. 15:04:14 (0)


138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:04]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tel að með þessari breytingu sé meiri hlutinn að gera hrikaleg mistök. Fyrirvararnir sem settir voru hér í lok ágúst sættu endurskoðun íslenskra dómstóla og fara átti með þá að íslenskum lögum. Það er ekki þannig í dag, heldur munu ensk lög og enskir dómstólar úrskurða um allan ágreining sem getur hlotist af þessum samningum. Um leið er líka verið að festa í sessi að tekjuskattur 79.000 Íslendinga mun á næstu sjö árum — í hinu svokallað skjóli — fara í að greiða vextina af Icesave-samningunum. Ég held að þjóðin eigi að hafa það í huga um leið og hún þarf að þola skattpíningu af hálfu ríkisstjórnarinnar að stór hluti þeirra skatta sem hún greiðir (Forseti hringir.) fer í að borga vexti af Icesave-samningunum. Ég segi nei, frú forseti.