Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 08. desember 2009, kl. 15:08:41 (0)


138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér er enn eitt ákvæðið um kaffiboð eins og víða, menn eiga að setjast niður og spjalla um hvað gerist ef staðan í íslenskum þjóðarbúskap verður slæm og þá munu Bretar segja, eins og þeir hafa sagt: Á Bretlandi er fullt af fátæku fólki, milljónir, og hví ekki á Íslandi? Þeir munu ekki hafa mikinn áhuga á því. Þeir munu vísa í lánasamning sem er búið að gera og hann skal greiddur og ef hann ekki fæst greiddur með ríkisábyrgð munu þeir segja við þessa elsku umhverfissinna á Íslandi: Virkið meira eða seljið okkur Landsvirkjun eða leyfið Skotum að veiða við Ísland. Þetta munu Bretar og Hollendingar segja við Íslendinga. Ég bið hv. þingmenn að hugsa virkilega vel sinn gang því að sá sem ekki getur borgað og staðið við ríkisábyrgð er í mjög slæmum málum, frú forseti, og það er ekki hægt að víkja sér undan ríkisábyrgð eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur gefið í skyn. Það er ekki hægt. Ég segi nei. (VigH: Heyr, heyr.)