Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 08. desember 2009, kl. 15:15:14 (0)


138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fullyrði að það er enginn þingmaður hér inni sem hefur trú á þessum breytingum. Ég fullyrði að enginn hafi sannfæringu fyrir því að við getum höndlað þetta mál þegar kemur að skuldadögum. Við vitum það sem erum búnir að taka þátt í þessari umræðu í salnum og annars staðar að menn telja að þetta muni einhvern veginn reddast. Margir eru með þá trú, virðulegi forseti, að ef Ísland gangi í Evrópusambandið muni þetta leysast einhvern veginn.

Virðulegi forseti. Ég held að það skipti afskaplega miklu máli að þjóðin viti af því að þetta er uppleggið og ég held að það sé afskaplega mikilvægt, virðulegi forseti, að kjósendur hafi samband við þingmenn sína vegna þess að enn er von til þess að breyta þessu máli. Það er algerlega ljóst að þegar menn eru búnir að loka þessu máli, greiða um þetta atkvæði, þá er það óafturkræft.