Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 08. desember 2009, kl. 15:17:24 (0)


138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:17]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Hinir síðustu munu verða fyrstir. Ef ég hefði fullvissu fyrir því að orð hv. þm. Magnúsar Orra Schram bæru það með sér að við hefðum tryggingu fyrir því að hans bjarti draumur rættist þá mundi ég styðja hann í þessum málflutningi. Inni í þeirri grein sem hér um ræðir er verið að veikja þann fyrirvara sem Alþingi setti einfaldlega vegna þess að í fyrri grein og í fyrri lögum hafði Alþingi heimildir til að knýja Breta og Hollendinga að samningsborði og hafði tæki til að stýra umræðunni og leiða það fram hvaða áherslum við vildum ná fram. Það er ekkert í þessum lögum, það er ekkert í málflutningi stjórnarliða, sem segir með hvaða hætti við eigum að fara til þessara viðræðna. Það er ekkert sem segir að þeir séu bundnir af því að virða þá ósk, ekki nokkur skapaður hlutur. Alþingi hefur einfaldlega það hlutskipti að verða síðast í þessari röð.