Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 08. desember 2009, kl. 15:20:37 (0)


138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við sjáum það á því hvernig atkvæði hafa fallið í dag að búið er að snúa upp á hendurnar á flestum stjórnarliðum þó svo nokkrir — það vekur mikla óró á ríkisstjórnarbekknum að menn bendi á hið augljósa að búið er að snúa upp á hendurnar á flestum stjórnarliðum þó að nokkrir hafi hugrekki til þess að standa með þeirri sannfæringu og þeirri sannfæringu sem allir hafa sem eru í þessum sal. (Gripið fram í: … sannleikann, Guðlaugur Þór.) Enn verða stjórnarliðar truflaðir við það að fá að heyra sannleikann og hið augljósa í þessum málum. Það er hins vegar enn von og nú munum við fjalla um þetta mál í nefndum þingsins og ég hvet kjósendur, þá sem kusu þetta fólk, VG og Samfylkinguna, til að hafa samband við þingmenn sína og sjá til þess að þeir fylgi sannfæringu sinni en láti ekki snúa upp á hendurnar á sér.