Fjáraukalög 2009

Þriðjudaginn 15. desember 2009, kl. 14:04:59 (0)


138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[14:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tala hér fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2009.

Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar eftir 2. umr. og leitað m.a. skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi breytingar á fjárheimildum. Meiri hlutinn gerir breytingartillögu við sundurliðun 2 sem nemur alls 6.092 millj. kr. til lækkunar gjalda, þ.e. vaxtagjöldum ríkisins. Auk þess eru gerðar breytingar á 2. gr., sjóðstreymi ríkissjóðs, og 3. gr. um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir og 4. gr., heimildagrein. Þá eru gerðar breytingar á tekjugrein í ljósi nýrra upplýsinga um innheimtar tekjur það sem af er þessu ári og endurskoðaðra áætlana um vaxtatekjur ríkissjóðs en gert er ráð fyrir hækkun tekna um 8.766,4 millj. kr. frá 2. umr. um frumvarpið.

Breytingar á vaxtagjöldum eru einkum vegna Arion banka í samræmi við samkomulag um að bankinn endurgreiði ríkissjóði 6.500 millj. kr. vegna vaxta af skuldabréfinu sem ríkið gaf út sem greiðsla á hlutafjárframlagi sínu og kemur sú greiðsla því til lækkunar á vaxtakostnaði samkvæmt fyrri áætlun. Að öðru leyti er að stærstum hluta um að ræða endurreikning á vaxtaáætlun ríkissjóðs vegna eigendaskipta að Íslandsbanka. Auk þess er um að ræða ýmsar smærri breytingar, svo sem hækkun á vaxtakostnaði af erlendum skuldum þar sem gengi krónunnar gagnvart evru er nú veikara en reiknað var með í fyrri áætlun. Nánari tilgreining á þessum breytingum er í framhaldsnefndarálitinu sem liggur fyrir þinginu.

Ef farið er yfir nokkrar skýringar við breytingartillögur er í a-lið lögð til 185 milljarða kr. lækkun á lántökuheimildum ríkissjóðs. Í fyrsta lagi hefur lánsfjárþörf vegna eiginfjárframlaga til nýju bankanna minnkað um nálægt 140 milljarða kr. frá fyrri áætlunum en á móti koma 49 milljarða kr. lánveitingar til þeirra sem fjármagna þarf með lántökum. Í öðru lagi frestast 27 milljarða kr. lántökur til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann til ársins 2010. Í þriðja lagi lækka aðrar áætlaðar lántökur ríkissjóðs með útgáfu ríkisverðbréfa um 17 milljarða kr. Í fjórða lagi er lögð til 50 milljarða kr. lækkun til samræmis við áætlaðar heildarlántökur í 2. gr.

Í b-lið er lögð til 28,5 milljarða kr. hækkun á endurlánaheimild vegna samtals 55,5 milljarða kr. lánveitingu, annars vegar 25 milljarða kr. til Íslandsbanka og hins vegar 30,5 milljarða kr. til Arion banka, en á móti kemur að lánveiting til Seðlabankans vegna gjaldeyrisvaraforða lækkar um jafngildi 27 milljarða kr.

Í c-lið er lagt til að fjármálaráðherra verði veitt heimild til að ábyrgjast skuldabréf Keflavíkurflugvallar ohf. vegna uppgjörs félagsins á lífeyrisskuldbindingum vegna starfsmanna Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar í tengslum við sameiningu stofnunarinnar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. í Keflavíkurflugvöll ohf. Hér er í raun um tilfærslu á ábyrgð að ræða því að ríkissjóður er ábyrgur fyrir lífeyrissjóðsgreiðslum ríkisstarfsmanna.

Þá er breytingartillaga við 4. gr. um heimildir m.a. til að kaupa og selja hluti í innlendum sparisjóðum í tengslum við endurskipulagningu sparisjóðakerfisins. Einnig er heimild til að leigja hentugt húsnæði fyrir bráðabirgðafangelsi í nágrenni fangelsisins að Litla-Hrauni. Báðar þessar heimildir eru raunar líka í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2010 þar sem ekki liggur endanlega fyrir hvort til afgreiðslunnar kemur á þessu ári eða í upphafi næsta árs.

Loks er breytingartillaga varðandi tekjur a-hluta sem eru sundurliðaðar í fylgiskjali og verður ekki farið nánar yfir það, að upphæð 8,7 milljarða kr.

Nokkuð hefur verið rætt um aðhaldsaðgerðir í frumvarpi til fjáraukalaga. Í bréfi Ríkisendurskoðunar um fjáraukalög, dags. 22. október, kemur fram að Ríkisendurskoðun telur að frumvarpið sé í samræmi við lög og reglur og fjárhæðir séu þar rétt tilgreindar. Engu að síður gerir Ríkisendurskoðun nokkrar athugasemdir, einkum varðandi það að kröfur um lækkun eða hagræðingu hjá einstökum stofnunum hafi ekki gengið fram sem skyldi og gerir athugasemd um að skilaboðin til stofnana hafi ekki verið nægjanlega skýr.

Rétt er að skoða í þessu tilliti hvernig aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar og fjárlaga hafa gengið eftir, en eins og kunnugt er var lögð fram skýrsla um jöfnuð í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013 í júnímánuði. Á þeim sama tíma var lagður fram svokallaður bandormur, þar sem breyting varð á tekjum og ýmsir liðir skornir niður en einnig voru áætlanir um auknar tekjur. Því er rétt að fara aðeins yfir það hvernig það hefur gengið eftir.

Aðhaldsaðgerðir í rekstri námu samtals 1.790 millj. kr. og jafngildir það 0,9% lækkun á rekstrarveltu fjárlaga 2009. Þegar er búið að ná ákveðnum árangri í lækkun rekstrarútgjalda. Gripið hefur verið til ýmissa ráðstafana, t.d. hefur yfirvinna, sem var á þeim tíma, verið skert á árinu. Dregið var úr ferðakostnaði og fleiru sem má sjá í þeirri skýrslu og undir leiðarljósi ríkisstjórnarinnar í niðurskurðartillögum þar.

Takmarkanir hafa verið settar á að nýta afgangsheimildir fyrri ára til að komast hjá hagræðingu í rekstrinum, þ.e. reynt verður að hindra það að stofnanir og ráðuneyti geti nýtt sér heimildir til að komast hjá því að hagræða í eigin rekstri. Það verður þó að gera ráð fyrir því að misjafnt verði hvernig stofnunum tekst að mæta slíkum aðhaldsmarkmiðum. Helsta dæmið um það að þetta hafi kannski ekki tekist sem skyldi er Landspítalinn, sem hefur ekki náð þeim árangri sem að var stefnt á fyrri hluta ársins, en verið er að koma fram ráðstöfunum til að spítalinn nái þeim settu markmiðum þótt það taki lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir.

Almennt gildir að ef stofnanir ná ekki aðhaldsmarkmiðum sínum í ár hafa fjárheimildir engu að síður verið lækkaðar og þurfa viðkomandi aðilar því að ná betri árangri á næsta ári í staðinn. Ekki er ástæða til að ætla annað en að þorri ríkisstofnana muni framfylgja þeirri rekstrarhagræðingu sem að var stefnt og að er stefnt í framhaldi á næsta ári.

Aðhaldsaðgerðir í tilfærslu nema samtals rétt rúmlega 3 milljörðum kr. og jafngildir 1,4% af lækkun á veltu tilfærsluútgjalda á fjárlögum 2009. Helstu aðgerðirnar voru þær að í fyrsta lagi var ákveðið að lækka útgjöld almannatrygginga um samtals 2.258 millj. kr., eða rúma tvo milljarða. Aðgerðir í almannatryggingum fólust í breytingum á skerðingarreglunni með lagabreytingu sem tóku gildi 1. júlí í ár. Miðað við rauntölur það sem af er á þessu ári verður ekki betur séð en að áætlaður sparnaður sé að skila sér að fullu og að útgjöld verði jafnvel nokkuð lægri en fjárheimildir.

Í öðru lagi var ákveðið að lækka útgjöld til sjúkratrygginga um samtals 440 millj. kr., þar af voru 100 millj. kr. í sérfræðilækniskostnað, 230 millj. kr. í almennum lyfjakostnaði og 110 millj. kr. í sjúkraþjálfun. Þessum áformum var að mestu komið fram með reglugerðarbreytingum. Áætlað er að aðgerðir til að lækka útgjöld í sjúkratryggingum sé að mestu að skila sér þannig að þau verði lægri en ella sem þessu nemur, en útgjöld geta þó aukist af öðrum orsökum, eins og fyrir liggur varðandi S-merkt lyf.

Í þriðja lagi var áformað að lækka útgjöld vegna sóknargjalda um 150 millj. kr. Útfærsla á þeirri ráðstöfun var þó þannig að lækkunin tók gildi frá miðju ári og er því gert ráð fyrir að um helmingur af samdrætti sóknargjaldanna náist á yfirstandandi ári.

Í fjórða lagi var ákveðið að lækka útgjöld til þróunaraðstoðar um samtals 100 millj. kr. að teknu tilliti til fyrirliggjandi skuldbindinga í þessum málaflokki og verður því framfylgt í framlögum til verkefna.

Í fimmta lagi var áformað að lækka útgjöld Fæðingarorlofssjóðs um 70 millj. kr. á árinu 2009. Lækkuninni var mætt með lagabreytingum um lækkun á hámarksgreiðslum úr 438 þús. kr. í 350 þús. kr. á mánuði. Ekki verður betur séð en að lækkunin sé að skila sér að fullu.

Því má segja að almennt hafi þau markmið sem sett voru um aðhald í ríkisfjármálum náðst.

Eins og áður sagði er í athugasemdum frá Ríkisendurskoðun um þessi áform vikið að því að verulegur fjöldi stofnana sem áttu ónýttar eldri fjárheimildir hafi verið að ganga á þær, enda hafa tilmæli um annað frá ráðuneytum verið óljós og misvísandi að sögn Ríkisendurskoðunar. Í sömu efnisgrein kemur þó fram að fjármálaráðuneytið hafi sent fagráðuneytum tilmæli um takmarkanir á flutningi afgangsheimilda. Þetta kom reyndar skýrt fram í bréfi til ráðuneyta í lok júní um útfærslu aðhaldsráðstafana og áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum. Þetta var líka tiltekið í þessum áðurnefndu leiðarljósum í skýrslunni síðastliðið sumar sem ætlast var til að komið yrði á framfæri við stofnanir. Stýrihópurinn í sumar tók líka þessa umræðu við flest ráðuneytin. Það er svo í verkahring fagráðuneytanna að fylgja þessu eftir til að varna því að útgjöld verði umfram fjárheimildir fyrir árið 2009.

Í heild lítur árið 2009 þannig út að halli ársins, þ.e. fjárheimildir eða ráðstöfun fjárheimilda eftir allt, verði einungis rúmur 151 milljarður kr. sem er heldur minna en fjárlög gerðu ráð fyrir í upphafi.

Það hefur komið fram ítrekað í umræðunni um fjáraukalögin og raunar um fjárlögin líka hvernig eigi að bóka tónlistarhús og hugsanlegar Icesave-skuldbindingar. Þar vísa ég bara aftur á að varðandi tónlistarhúsið var það klár niðurstaða Ríkisendurskoðunar að ekki sé ástæða til að færa neinn kostnað á árinu 2009, þess vegna er það ekki gert. Varðandi Icesave-samkomulagið hefur það líka verið sagt ítrekað að það muni verða fært um leið og það samkomulag í endanlegri gerð liggur fyrir.

Í allri þessari umræðu og umræðu um fjárlögin hefur oft verið rætt um að það sé verkefni fjárlaganefndar og framkvæmdarvaldsins að bæta enn ferli við fjárlagagerð og fjárlagavinnu en ekki síður að styrkja eftirlitshlutverk nefndarinnar og Alþingis. Þetta kom raunar vel fram í 2. umr. um fjárlög fyrir árið 2010. Því ætla ég ekki að eyða mörgum orðum í það en þetta er það verkefni sem bíður á næsta ári, þ.e. að vinna slíkt eftirlit með betri hætti.

Ég vil að lokum þakka starfsfólki nefndasviðs Alþingis, einkum starfsmönnum fjárlaganefndar, fyrir frábæra vinnu að venju, sem og þeim fulltrúum ráðuneyta og stofnana sem hafa lagt okkur lið. Ég vil einnig þakka nefndarmönnum í fjárlaganefnd fyrir ágætt samstarf.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um á sérstökum þingskjölum.