Fjáraukalög 2009

Þriðjudaginn 15. desember 2009, kl. 14:20:45 (0)


138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[14:20]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég tel skattstofnana vera það veika að ekki sé ekki fýsilegt að fara í þessar skattahækkanir vegna þess að tölulegar staðreyndir í fjáraukalagafrumvarpinu núna sýna okkur að þar kemur um 6,6 milljörðum minna á einstaklinga en áætlun gerði ráð fyrir og 2,5 milljörðum minna á lögaðila, þ.e. fyrirtækin í landinu sem standa mjög veikt um þessar mundir. Samt er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að það muni hækka um 4,2 milljarða.

Það kom fram gagnrýni í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem vitnað var í hér áðan, á að það væru mjög óskýr skilaboð frá heilbrigðisráðuneytinu til að mynda til Landspítalans, að það væri mjög veikt eftirlit og aðhald frá stofnuninni og óskýr fyrirmæli um það hvernig bregðast eigi við. Var sérstaklega bent á að fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra hefði einmitt slegið af 152 milljónir í komugjöld án þess að gera ráðstafanir á móti. Því langar mig að spyrja hv. þingmann, vegna þess að ég veit að hann er mikill áhugamaður um að bæta aðhald í ríkiskerfinu, hvort hann taki ekki undir með mér að núna verði menn að hafa þetta stífa aðhald til þess að stofnanirnar haldi sig innan eðlilegra marka og fái rétt gefið í upphafi, svo verði þær að halda sig innan fjárlaga. Ég held að það sé mjög mikilvægt á þessum tímum að allar stofnanir fari eftir fjárlögum.

Að lokum vil ég spyrja hvað hv. þingmanni finnst um það, af því að það kom fram á fundi í fjárlaganefnd, að menn hafa verið að þróa eins konar tilsjónarmannakerfi í ráðuneytunum. Finnst honum ekki eðlilegt að af þeirri braut verði snúið og þeir aðilar sem ekki geta haldið sig innan fjárhagsáætlana fari bara inn í áminningakerfið og verði látnir hætta ef þeir geti ekki haldið stofnunum innan fjárlaga?